„Við höfum verið í stöðugri leit að húsnæði í sjö mánuði,“ segir Stefanía Fanney Jökulsdóttir. Hún er að auglýsa eftir íbúð til leigu fyrir fjölskylduna sem telur fjóra einstaklinga: Stefaníu og mann hennar Helga Jónsson, dótturina Karólínu Kristínu sem 14 mánaða og hundinn Jimi Hendrix.
Stefanía hefur leigt sömu, litlu íbúðina í Reykjavík í sex ár. Nú hefur fjölskyldan stækkað og þörf er á stærra húsnæði. Hún segist sækja um hverja einustu íbúð sem hún telur að gæti hentað en allt kemur fyrir ekki, fátt er um svör og öll eru þau neikvæð.
Í hverjum mánuði svarar hún um tíu auglýsingum. 1-2 íbúðir af þeim fær hún svo að skoða. „Við höfum því skoðað fullt af íbúðum en svo heyrist oftast ekki meira.“
Leigusamningur Stefaníu við núverandi leigusala er runninn út. Hún segir að sem betur fer sé leigusalinn mjög almennilegur og hefur samþykkt að framlengja samninginn tímabundið. „En ég þekki fólk sem hefur ekki fengið slíka framlengingu og hefur endað inni á gólfi hjá foreldrum og vinum.“
Stefanía segir að leiguverð sé orðið mjög hátt og húsnæði sem þau leiti að, 2-3 herbergja íbúð, geti jafnvel kostað um 3.000 krónur á fermetrann. Því geti mánaðarleiga fyrir um 70 fermetra íbúð verið yfir 200 þúsund krónum.
„Það er varla hægt að leigja fyrir svo hátt verð,“ segir Stefanía sem telur að 2.500 kr. á fermetrann, um 175 þúsund krónur fyrir 70 fm íbúð, væri nær lagi, þó hátt sé.
Stefanía vill geta gefið íbúðina upp svo hún geti sótt sínar húsaleigubætur og búið við ákveðið öryggi. Slíkt standi ekki alltaf til boða hjá leigusölum.
Hún segir að staða sín og Helga sé verri en ella þar sem þau eru bæði með barn og hund. „Það er nú ekki allt í boði fyrir okkur. Margir vilja alls ekki gæludýr og það flækir okkar stöðu auðvitað.“
Stefanía og Helgi eru bæði í fullri vinnu og stunda einnig nám. Þau er því með öruggar tekjur og auk þess góð meðmæli frá núverandi leigusala. En allt kemur fyrir ekki.
„Þetta er auðvitað leiðinlegt. Núna búum við þröngt, erum tvö fullorðin með lítið barn og hund í 45 fermetra íbúð. Þannig að stofan er líka notuð sem svefnherbergi, sjónvarpshol og borðstofa. Barnið fær auðvitað sitt herbergi, það er í forgangi.“
Stefanía segist þrátt fyrir allt ekki beinlínis svartsýn. „Mér finnst mjög leiðinlegt að sjá hvað fáir vilja leigja fólki með gæludýr. Jafnvel þó að það séu sérinngangar að íbúðunum. Þannig að ég spyr sjálfa mig hvort ég sé að fara að enda aftur í foreldrahúsum til að eiga möguleika á að safna mér fyrir útborgun í íbúð. En þá er maður kominn inn á aðra og það er nú ekki draumastaðan fyrir fullorðið fólk.“
Stefanía segist ekki eiga nógu mikinn sparnað fyrir útborgun í íbúð sem hún yrði sátt við. „Maður gæti kannski keypt eitthvert húsnæði sem þarfnast mikils viðhalds og er ekki eins og maður vill hafa það.“
Nýverið ákvað Stefanía að auglýsa sjálf eftir íbúð, eftir að hafa áður aðeins svarað auglýsingum þeirra sem eru með íbúðir til leigu. Hún vonar að það muni reynast betur. Hún fékk reyndar strax svar við auglýsingunni. Sú íbúð var alveg fullkomin. En alltof dýr. „Við höldum því áfram að leita. Og vonum það besta.“