Elísa Snæbjörnsdóttir auglýsti eftir leiguíbúð á Facebook fyrir nokkrum dögum. Hún hefur fengið margar fyrirspurnir en þær snúast nær eingöngu um íbúðina sem hún býr í og er að flytja úr. Minna er um ábendingar um stærri íbúðir til leigu, líkt og hún leitar að.
„Það rignir yfir mig skilaboðum um hvar ég búi og hvenær íbúðin losni,“ segir Elísa. Hún segir þetta þó skiljanlegt. Fjölmargir séu í húsnæðisleit og fólk grípi hvert tækifæri til að finna sér íbúð.
Staðan á leigumarkaði og húsnæðismarkaði almennt er þung. Eftirspurnin er meiri en framboðið. Það þýðir að leiguverð hækkar og erfitt og stundum nær ómögulegt er að fá íbúð til leigu, að minnsta kosti á þeim stað sem fólk helst kýs.
Algengt verð á fermetrann í leiguíbúðum í Reykjavík er 2.500-3.000 krónur. Það getur verið mun hærra en einnig lægra, allt eftir ástandi íbúðarinnar og staðsetningu hennar. Sem dæmi er 58 fermetra íbúð í 107 Reykjavík til leigu á 180 þúsund eða 3.100 kr. fermetrinn. Í 108 Reykjavík er hægt að leigja 95 fermetra íbúð á 250 þúsund krónur eða á 2.600 kr. fermetrann.
Elísa og maðurinn hennar, Frank, þurfa að stækka við sig. Fjölgun varð í fjölskyldunni fyrir nokkrum mánuðum er sonurinn Úlfur Snær kom í heiminn. Þau hafa leigt sömu íbúðina í Hlíðahverfi í Reykjavík í meira en ár og líkar hún vel. Hún er hins vegar orðin of lítil. „Við myndum helst ekki vilja fara úr þessari íbúð, leigusalinn er frábær og sömuleiðis nágrannarnir. Þetta er mjög lítið og skemmtilegt samfélag sem við búum í.“
En vegna erfiðrar stöðu á húsnæðismarkaði sé ekki hægt að leyfa sér að einblína eingöngu á ákveðin hverfi. Því auglýsir fjölskyldan nú eftir leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta snýst einfaldlega um að fá íbúð einhvers staðar.“
Elísa og Frank hafa farið að skoða tvær íbúðir síðustu daga en hvoruga fengið. „Ég hef ekki lent í þessu áður, að finna bara ekki íbúð til að leigja.“
Hún segist þó enn bjartsýn. „Ég leyfi mér að vera það, það þýðir ekkert annað. Af því að maður verður auðvitað að eiga heima einhvers staðar.“
Elísa er kennari og maðurinn hennar vinnur hjá gróðrastöð. „Við erum bara venjulegt fólk í venjulegri vinnu. Við erum með allar klær úti við að leita að íbúð.“
Auglýsing Elísu, Franks og Úlfs er svohljóðandi: „Við fjölskyldan leitum að annarri íbúð, þar sem Úlfur stækkar hratt og íbúðin minnkar eftir því.
Við leitum því að 2.-3. herbergja íbúð á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Við erum frábær á allflestum sviðum, og algjörlega framúrskarandi leigjendur, það geta núverandi leigusalar vottað, sem við munum sakna mjög mikið. Þið megið endilega hafa okkur í huga ef þið heyrið af íbúð. Ekki væri verra ef leiguverð væri manneskjulegt.“
Elísa segir að öll ráð séu nýtt, vinir og fjölskyldur deili auglýsingunni og séu að aðstoða við leitina. „Ég upplifi það svolítið eins og að vera að selja sál mína,“ segir Elísa hlæjandi.
Eins og staðan er í augnablikinu geta Elísa og Frank ekki keypt íbúð. Hún segir það „útópíu“ að eignast raunverulega eitthvað í íbúð. „Ég er hrædd um að maður yrði alltaf fastur í einhverju skuldafeni, hvernig sem maður lítur á það.“
Frank er frá New York en fjölskyldan vill núna búa á Íslandi. „Þrátt fyrir allt þá finnst mér kostirnir við að búa á Íslandi fleiri en við að búa annars staðar.“
Dæmi er um að leigusölum sé úthúðað á Facebook fyrir allt of hátt verð og þeir sakaðir um græðgi. Elísa telur þetta ósanngjarna gagnrýni.
„Þetta eru tvær hliðar á sama peningi. Það eru margir að leita og fáir sem hafa íbúðir að bjóða. Eftirspurnin er svo mikil að leigusalar geta ekki svarað öllum sem spyrja. Það er varla að fólk þori að auglýsa íbúðir til leigu, það fær hundruð skilaboða og svo jafnvel alls konar leiðindi.“
Staða leigusala sé því ekki öfundsverð frekar en leigjenda.
„Vandamálið er ekki að leigusalar séu ósanngjarnir og leigjendur ómögulegir heldur það að það vantar fleiri íbúðir. Þetta er ekkert flóknara en það.“