Mótmælendur í Berufirði lokuðu þjóðvegi 1, Berufjarðarvegi, og var hann lokaður í um það bil tvær klukkustundir í dag í mótmælaskyni vegna ákvörðunar samgönguráðherra um niðurskurð til framkvæmda í samgöngumálum sem komi niður á uppbyggingu vegarins um fjörðinn.
„Við töldum mest 61 bíl sem kom hingað gagngert til að mótmæla,“ segir Svavar Pétur Eysteinsson, bóndi á Karlsstöðum í Berufirði og tónlistarmaðurinn Prins Póló, í samtali við mbl.is. Telur hann að um það bil þrír til fjórir hafi verið í hverjum bíl og þátttakan hafi þannig farið langt fram úr væntingum. „Við bjuggum svo sem ekki við neinu, við ákváðum þetta með stuttum fyrirvara,“ segir Svavar, „þannig að þetta lukkaðist mjög vel.“
Mótmælendur færðu bíla sína og afléttu þannig lokun vegarins rétt fyrir klukkan þrjú í dag eftir um tveggja tíma lokun. Lögregla var ekki kölluð til að sögn Svavars og fóru mótmælin friðsamlega fram en ákveðið hefur verið að endurtaka leikinn mjög fljótlega aftur.
„Á næstu dögum munum við loka veginum aftur og má þá búast við að það verði ennþá meiri óþægindi, jafnvel fyrir flutningabíla og póstbíla og aðra sem þurfa að komast veginn,“ segir Svavar.
Segir hann flesta vegfarendur hafa sýnt biðlund og skilning vegna mótmælanna en einhverjir hafi þó sýnt gremju sína. „Sem er nú bara eðlilegt, fólk vill komast leiðar sinnar,“ segir Svavar en það sama gildi auðvitað um íbúa svæðisins sem vilji komast leiðar sinnar á almennilegum vegum.
„Þess vegna erum við nú að þessu, við getum ekki horft upp á að það sé búið að skera þennan veg niður í áratugi liggur við. Við munum halda þessu til streitu þangað til að þessi ákvörðun samgönguráðherra verður endurskoðuð og við munum valda áframhaldandi óþægindum og lokunum á umferð þangað til,“ segir Svavar að lokum.