16 alvarleg slys urðu á Grindarvíkurvegi 2007 til 2016, þar af eitt banaslys. Tvö banaslys hafa hins vegar orðið á veginum á þessu ári, eitt í janúar og annað núna um helgina. Þá slösuðust tveir þegar bíll valt á veginum skammt frá afleggjaranum við Bláa lónið 25. febrúar síðastliðinn.
Á árunum 2007 til 2016 urðu alls 124 slys og óhöpp á veginum sem er 14 kílómetra langur. Þau voru flest árið 2011 eða 22 talsins, þar af tvö alvarleg, níu með litlum meiðslum og ellefu án meiðsla. Fæst voru þau árið 2016 en þá var eitt alvarlegt slys á veginum og eitt slys með litlum meiðslum.
Í samtali við mbl.is í gær sagði Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að það væri aðeins tvennt hægt að gera til þess að gera veginn öruggari. Það er að aðskilja akstursstefnur og laga umhverfi vegarins. Vilhjálmur tilheyrir hópi sem berst fyrir umbótum á Grindavíkurvegi ásamt bæjarstjóra Grindavíkur, fulltrúum bæjarstjórnar og fulltrúum stærstu fyrirtækjanna á svæðinu.
Að sögn Vilhjálms var hópurinn settur á laggirnar um miðjan janúar, stuttu eftir að 18 ára stúlka lést í slysi á Grindavíkurvegi, norðan við afleggjarann að Bláa lóninu. Hópurinn fundar með Jóni Gunnarssyni samgönguráðherra 15. mars.
Vilhjálmur sagði að hópurinn hafi undanfarnar vikur unnið að því að safna upplýsingum um Grindavíkurveginn og sagði hann að eitt af því fyrsta sem komið hafi ljós sé að umferðin um veginn sé á einhvern hátt flóknari en á öðrum vegum landsins.
„Hér ertu með 3.200 manna bæjarfélag sem er ört vaxandi og svo er þetta orðið stórt atvinnusvæði þannig að margt fólk kemur hingað til að vinna í Bláa lóninu og á fleiri stöðum og margir fara héðan til Reykjavíkur eða út á Keflavíkurflugvöll til að vinna. Þetta er þessi venjulegi íbúi sem er vanur veginum, þekkir hann og keyrir samkvæmt því. Svo ertu með unga fólkið sem þarf að keyra í skóla dags daglega, því hér er hvorki framhaldsskóli né háskóli. Svo ertu með rúmlega 90% af öllum ferðamönnum sem koma til landsins sem koma gangandi, hjólandi eða keyrandi um veginn og það er allt óvant fólk á veginum. Loks koma 50 rútur í Bláa lónið á hverjum degi og svo ertu með gríðarlega þungaflutninga út af fiskinum.“