Ákvörðun ráðherra stenst ekki lög

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Gunnarsson samgönguráðherra var harðlega gagnrýndur við upphaf þingfundar í dag. Fjölmargir þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu framgöngu Jóns vegna samgönguáætlunar óásættanlega.

Þingmennirnir sögðu að það kraumaði reiði í samfélaginu vegna ákvörðunar samgönguráðherra en niðurskurður til fram­kvæmda í sam­göngu­mál­um mun koma niður á uppbyggingu vega á Austfjörðum og Vestfjörðum.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, líkti þessu við það þegar umræða um Evrópusambandsaðild Íslands var ekki tekinn fyrir á Alþingi á síðasta kjörtímabili. „Mig langar að vita hvað þingmönnum meirihlutans þykir um þetta gerræði ráðherrans,“ spurði Birgitta og bætti við hvort þetta væri fúsk eða eðlileg vinnubrögð.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði að ákvörðun Jóns stæðist ekki lög. 

Ráðherra lítur á sig sem sólkonung

„Þetta snýst um valdmörk. Ráðherrann virðist líta á sig sem hinn nýja sólkonung,“ sagði Logi og sagði ljóst að þingmenn þyrftu að skipuleggja námskeið í valdmörkum.

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, telur ljóst að Jón Gunnarsson hafi ekki heimild samkvæmt gildandi lögum til að fara gegn ákvörðun Alþingis sem samþykkti samgönguáætlun fyrir jól. Hún sagði þetta ekki vera í fyrsta skipti sem Jón beiti geðþóttavaldi en áður hefði hann verið rekinn til baka með rammaáætlun á síðasta kjörtímabili. 

„Ég trúi ekki að meirihluti Alþingis styðji þetta,“ sagði Svandís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert