Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur lýst yfir miklum áhyggjum af ófjármagnaðri samgönguáætlun Alþingis í ályktun og nefnir í því samhengi ómalbikaða vegakafla á þjóðvegi 1, m.a. um Berufjörð og Borgarfjörð Eystri. Þá hefur Húsavíkurstofa einnig gagnrýnt áætlunina harðlega og furðar sig á því að stjórnmálamenn umgangist samgönguáætlun með þeim hætti sem gengur þvert gegn yfirlýsingum þeirra í aðdraganda kosninga.
Í ályktun bæjarráðs Fjarðabyggðar segir að það þurfi fyrst og fremst að horfa til öryggis vegfaranda, „en alkunnugt er að mikil og vaxandi umferð er um allt land um þessar mundir vegna aukins ferðamannastraums til landsins og aukinna flutninga á vegum,“ segir í ályktuninni.
Bent er á þá vegakafla á þjóðvegi 1 sem ekki hafa verið malbikaðir, en vegakaflinn um Berufjörð sem „er á köflum varhugaverður og nánast ófær við ákveðin skilyrði. Þá ber einnig að nefna veginn til Borgarfjarðar eystri, en mikilvægi vegarins hefur aukist á undanförnum árum vegna aukinnar umferðar til staðarins,“ segir í ályktuninni.
„Þá vill bæjarráð benda á að eitt af sex stefnumálum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi leggur áherslu á lagfæringu þeirra vegakafla sem ekki höfðu bundið slitlag. Eru þingmenn hér með hvattir til að leita leiða til þess að koma auknu fjármagni til vegakerfis landsins, m.a. með öryggisjónarmið að leiðarljósi sem og að horfa til langtíma-sjónarmiða við uppbyggingu innviða landsins í heild“.
Í ályktun Húsavíkurstofu, sem er sameiginlegur vettvangur ferðaþjónustuaðila á Húsavík, er það gagnrýnt harðlega að nauðsynlegar samgönguframkvæmdir á landsbyggðinni nái ekki fram að ganga í nýlega samþykktri samgönguáætlun Alþingis.
„Miðað við boðaðar breytingar á áætluninni er ljóst að Dettifossvegur verður ekki kláraður á árinu 2018 líkt og áður hafði verið stefnt að. Þetta er áfall fyrir ferðaþjónustuuppbyggingu á Norðurlandi og þar með samfélagið í heild sinni,“ segir í ályktuninni.
Húsavíkurstofa furðar sig jafnframt á því að stjórnmálamenn umgangist samgönguáætlun með þessum hætti sem gengur þvert gegn yfirlýsingum þeirra í aðdraganda nýafstaðinna kosningar um nauðsyn þess að setja meira fjármagn í uppbyggingu innviða, ekki síst til vegamála.
„Fyrir ferðaþjónustu á Íslandi er viðhald og uppbygging vegakerfisins og annarra samgöngumannvirkja einn mikilvægasti þátturinn til þess að atvinnugreinin nái að vaxa og dafna öllum landsmönnum til heilla. Áframhaldandi fjársvelti til samgöngumála mun leiða til hruns í samgöngukerfinu innan skamms tíma sem mun koma hart niður á ferðaþjónustu, öðrum atvinnugreinum og íbúum landsins,“ segir í ályktuninni.
Þá er Dettifossvegur kallaður „niðurgrafin moldarvegur“ sem getur alls ekki annað þeirri eftirspurn sem nú þegar er til staðar á svæðinu við Dettifoss.
„Húsavíkurstofa skorar á Alþingi að tryggja fulla fjármögnun á lífsnauðsynlegum samgönguframkvæmdum sem efla munu innviði og atvinnutækifæri á landsbyggðinni,“ segir í ályktuninni.