„Það sem skiptir hins vegar mestu máli í þessu er að ég og hæstvirtur utanríkisráðherra erum algerlega sammála og samstiga í því að tryggja hagsmuni Íslands og gæta þeirra á alþjóðavettvangi. Það er eitthvað sem við erum algerlega sammála um og við erum í mjög góðum samskiptum,“ sagði Jóna Sólveig Elínardóttir, þingmaður Viðreisnar og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag.
Frétt mbl.is: Ekki sammála því sem eftir var haft
Brást hún þar við fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sem rifjaði upp viðtal við Jónu Sólveigu á fréttavef bandaríska dagblaðsins Washington Times á dögunum þar sem hún lýsti þeirri skoðun sinni að aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) dygði ekki lengur til þess að tryggja hagsmuni Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Ennfremur að ísland þyrfti að ganga í Evrópusambandið til þess að tryggja þá hagsmuni.
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, hafði áður vakið máls á ummælum Jónu Sólveigar á Alþingi í gær þar sem hún spurði Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra hvort hann væri sammála ummælunum og hvort hann teldi þau samrýmdust stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem lögð væri áhersla á EES-samninginn þegar kæmi að samstarfi við Evrópusambandið. Guðlaugur Þór sagðist ekki sammála ummælunum væru þau rétt eftir höfð.
Minnti Lilja einnig á í því sambandi að Jóna Sólveig væri formaður utanríkismálanefndar og slík ummæli hennar í erlendum miðlum gætu sent röng skilaboð um stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum. Spurði hún utanríkisráðherra hvort ekki væri rétt að leiðrétta slík misvísandi skilaboð gagnvart samstarfsþjóðum Íslands í EFTA. Benti hún einnig á að Jóna Sólveig hefði svo hún vissi til ekki haldið því fram að rangt hefði verið eftir sér haft í viðtalinu.
Frétt mbl.is: Segir EES ekki duga lengur
Guðlaugur Þór sagði að utanríkisráðuneytið hefði sent leiðréttingu til Washington Times þar sem margt hefði verið rangt farið með í viðtalinu og meðal annars hefði fyrirsögn þess ekki verið í samræmi við það sem haft hefði verið eftir Jónu Sólveigu. Í svari sínu til Rósu Bjarkar á Alþingi í dag gerði Jóna Sólveig enga tilraun til þess að leiðrétta það sem eftir henni var haft í viðtalinu en lagði þess í stað áherslu á að tjáningarfrelsi væri í gildi hér á landi.
Rósa Björk spurði Jónu Sólveigu hvort hún hefði trú á utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar ef hún hefði hvorki trú á EES-samningnum né aðild Íslands að EFTA í ljósi þess sem þar kæmi fram. Spurði hún hvort samhljómur væri með ríkisstjórnarflokkunum um þá afstöðu til EES-samningsins sem hún hefði lýst í viðtalinu við Washington Times. Jóna Sólveig svaraði þessu ekki beint en sagði stjórnarsáttmálann skýran. Þar kæmi meðal annars fram að stjórnarflokkarnir þrír hefðu málfrelsi og virtu ólíka afstöðu hvors annars til málsins.