Harmleikur fyrir bandarískt lýðræði

Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur.
Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Margir héldu að Trump væri loksins búinn að ná áttum í síðustu viku þegar hann ávarpaði fulltrúadeild Bandaríkjaþings og las upp ræðu sem einhverjir aðrir höfðu væntanlega skrifað fyrir hann og sögðu: Sko, nú hegðar hann sér eins og forseti. Ég hugsaði með mér að þetta væri ansi mikil bjartsýni. Það væri barnalegt að halda að ekki þyrfti meira til þess að hann breyttist.“

Þetta segir Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, í samtali við mbl.is um Donald Trump Bandaríkjaforseta. Tveimur dögum síðar hefði nýtt flóð af skilaboðum komið frá forsetanum á samfélagsvefnum Twitter með fáránlegum ásökunum um að Barack Obama, forveri hans á forsetastóli, hefði látið hlera hann í aðdraganda forsetakosninganna á síðasta ári.

Stjórnkerfið nógu sterkt til að standast Trump

„Maðurinn er harmleikur fyrir bandarískt lýðræði og Vesturlönd. Hvað bandarískt lýðræði varðar el ég þá von í brjósti og trúi því að það sé það sterkt að það geti fundið leið til þess að takast á við þessar aðstæður. Þá hugsanlega í gegnum samþykkta vantraustsyfirlýsingu á einhverjum tímapunkti vegna þess að það er ekki hægt að búa við það ástand að enginn viti til dæmis hverjir raunverulegir viðskiptahagsmunir hans eru eða hver tengsl hans eru við rússnesk stjórnvöld. Það er algerlega óásættanlegt.“

Frétt mbl.is: „Þið vitið fullkomlega hvað er í pakkanum“

Það sama eigi við um það með hvaða hætti Trump hefur haldið áfram að reka viðskiptaveldi sitt sem eigi að mati Ellemann-Jensen eftir að leiða til árekstra við stjórnarskrá Bandaríkjanna. Einnig sé mögulegt að forsetinn muni einfaldlega láta sjálfur af embætti. „Við höfum einnig þegar séð hvernig bandarískir dómstólar hafa stöðvað ákveðna galnar ákvarðanir í fæðingu. Við höfum orðið vitni að því að Bandaríkjaþing er byrjað að láta í sér heyra,“ segir ráðherrann fyrrverandi ennfremur.

„Stjórnkerfið í Bandaríkjunum sem stendur vörð um stjórnarskrána, lýðræðið og þau gildi sem eru kjarni samstarfsins yfir Atlantshafið er að mínu mati nógu sterkt til þess að standast áskorun sem þessa. En þetta er harmleikur vegna þess að orð og gjörðir Trumps hafa afleiðingar,“ segir Ellemann-Jensen. Hann tekur sem dæmi að ýmsir bandamenn Bandaríkjamanna í nágrenni Kína séu farnir að koma sér í mjúkinn hjá stjórnvöldum í Peking vegna ummæla sem Trump hafi látið falla.

Hættuleg skilaboð til bandamanna Bandaríkjanna

„Sum þeirra virðast vera að gefast upp á bandalaginu við Bandaríkin vegna þess sem Trump hefur sagt. Þetta er stórhættulegt,“ segir hann. Ummæli Trumps í kosningabaráttunni á síðasta ári um að NATO væri úrelt bandalag og að Bandaríkjamenn myndu ekki endilega koma bandamönnum sínum til hjálpar ef ráðist yrði á þá hefðu mælst illa fyrir í Evrópu. Þetta væri í fyrsta sinn í sögu NATO sem sett hefði verið spurningamerki við það að árás á eitt bandalagsríki væri árás á þau öll.

„Ég get hins vegar tekið heilshugar undir það að Evrópuríki ættu að greiða meira fyrir eigin varnir. Það þarf ekki að ræða það. Það var rætt um það á níunda áratug síðustu aldar og það er enn verið að tala um það. En þetta spurningamerki hefur ekki verið sett við þennan kjarna samstarfsins áður,“ segir Ellemann-Jensen einnig. Þegar forseti Bandaríkjanna geri slík leggi fólk við hlustir. Þetta séu bæði röng skilaboð til Vladimírs Pútín Rússlandsforseta og bandamanna sem óttast um öryggi sitt.

„Þetta á til að mynda við um Eystrasaltsríkin og Pólland en einnig Svíþjóð og Finnland sem eru ekki í NATO en hafa verið að færa sig nær bandalaginu,“ segir hann. Þróunin sé hins vegar í rétta átt varðandi aukin fjárframlög til varnarmála. Eistland uppfyllti þegar skilyrði NATO um að verja 2% af landsframleiðslu til málaflokksins og Lettland og Litháen gerðu brátt slíkt hið sama. Pólland væri einnig að auka framlög til varnarmála. Eina ríkið við Eystrasaltið sem væri ekki að gera það væri Danmörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert