„Ég get ekki orða bundist yfir þeim orðum sem hæstvirtur fjármálaráðherra lét falla í útvarpsviðtali í morgun,“ sagði Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag undir dagskrárliðnum fundarstjórn forseta.
Vísaði hann þar til þeirra ummæla Benedikts Jóhannessonar fjármála- og efnahagsráðherra á Bylgjunni í morgun að samþykkt Alþingis á samgönguáætlun í október síðastliðnum hefði verið ófjármögnuð og þannig skapað rangar væntingar. Benedikt hefði sagt að þetta hefði verið nánast siðlaust af síðasta þingi. Þá hefðu fjárlög verið samþykkt fyrir jól af stjórnlausu þingi.
„Að tala um að vilji löggjafans, sem kemur skýrt fram í samþykktri samgönguáætlun, að það sé siðlaust af löggjafanum. Þetta er þvílík lítilsvirðing og þvílík brengluð hugsun á þrískiptingu ríkisvaldsins. Hæstvirtum fjármálaráðherra, honum ber að fara eftir samþykktum löggjafans,“ sagði Kolbeinn og kallaði eftir viðbrögðum forseta Alþingis við ummælum ráðherrans.
Fleiri stjórnarandstæðingar tóku til máls og gagnrýndu Benedikt harðlega. Kolbeinn tók síðan aftur til máls og fór fram á það við forseta þingsins að Benedikt yrði kallaður í ræðustól Alþingis og gert að biðja þingið afsökunar á ummælum sínum.