Mótmæla við Hornafjarðarfljót

Alls eru 56 brýr á þjóðveginum frá Höfn í Hornafirði …
Alls eru 56 brýr á þjóðveginum frá Höfn í Hornafirði að Hvolsvelli og þar af 26 einbreiðar. mbl.is/RAX

Yfir fimmtíu manns hafa skráð sig á viðburð á Facebook þar sem þjóðvegi 1 við Hornafjarðarfljót verður lokað í tvær klukkustundir á sunnudaginn af íbúum á nærliggjandi svæðum.

Þar verður mótmælt ákvörðun samgönguráðherra um að fresta vegaframkvæmdum á svæðinu sem áttu að stytta þjóðveginn um 12 kílómetra og fækka einbreiðum brúm um þrjár.

Á sunnudaginn fóru sams konar mótmæli fram í Berufirði þar sem 60 bílar lokuðu Berufjarðarvegi í tvær klukkustundir. 

„Við ætlum ekki að láta samgönguráðherra þagga niður í okkur með einhverjum yfirlýsingum um að mótmæli muni ekki breyta neinu! Við sem erum leið á þessu rugli og neitum að bara sitja heima og bölva, við mætum öll á okkar bílum til að sýna samstöðu og krefjast þess að niðurskurður til samgöngumála verði dreginn til baka,“ segir á Facebook-síðunni vegna mótmælanna við Hornafjarðarfljót. 

Marie-Louise Mathiasson.
Marie-Louise Mathiasson. Ljósmynd/Aðsend

70 kílómetrar með börnin í leikskóla

Ein þeirra sem stendur á bak við mótmælin er Marie-Louise Mathiasson, sænsk kona sem flutti í Suðursveit árið 2010. Hún á tvö börn á leikskólaaldri og sá sér þann kost vænstan að hætta að vinna í stað þess að þurfa að keyra 70 kílómetra með börnin í leikskóla á Höfn í Hornafirði aðra leið. Hún nefnir einnig að þrjú börn séu á næsta bæ sem byrji í skóla í haust.

Einbreiðu brýrnar „dauðagildrur“

Að sögn Marie-Louise er ekki öruggt að keyra þjóðveginn á veturna, meðal annars vegna einbreiðu brúnna sem að hennar mati eru dauðagildrur. Mörg slys hafi orðið á svæðinu. „Krakkar sem eru að byrja að fara í skóla þurfa að fara á fætur klukkan 6 á morgnana og eru komin heim seinnipartinn. Sex ára barn er með lengri vinnutíma en fullorðnir,“ greinir hún frá og segir að engin bensínstöð sé í Suðursveit. Sækja þurfi alla þjónustu til Hafnar. 

Jafnframt keyra að hennar sögn margir frá Höfn vestur í sveit í vinnu og því kemur umferð þaðan líka. Samtals segir hún að um 1.000 bílar keyri á degi hverjum eftir þjóðveginum við Hornafjarðarfljót.

„Fyrir okkur persónulega er þetta vandamál en þetta skiptir líka máli fyrir samfélagið í heild. Þar er þetta stærra vandamál því umferðin er orðin svo mikil. Ferðaþjónustan er stór atvinnugrein sem er að tapa á þessu,“ segir Marie-Louise.

Jón Gunnarsson samgönguráðherra.
Jón Gunnarsson samgönguráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Önnur mótmæli á Vestfjörðum 

Hún segir að umræða hafi komið upp í Facebook-hópnum Vinir Hornafjarðar um ástand mála, auk þess sem einhverjir höfðu talað við bæjarstjórnina í Höfn. „Þeir voru sammála því að við skyldum gera eitthvað í þessu og láta í okkur heyra. Vonandi hefur þetta áhrif á fleiri. Mér heyrist á fólki á Vestfjörðum að það ætli að mótmæla líka.“

20 ára barátta

Spurð segir Marie-Louise að fólk sé orðið þreytt á ástandinu. „Það eru 20 ár síðan þetta byrjaði. Ein kynslóð er búin að fara í skóla og missa af þessu og núna er næsta kynslóð að byrja. Ég er búin að ítrekað þetta síðan ég kom hingað,“ segir hún og bætir við að kvenfélagið á svæðinu hafi safnað undirskriftum í haust með ósk um framkvæmdir, sem yfir 200 manns skrifuðu undir.

Eitt þúsund manns hefur verið boðið á Facebook-viðburðinn á sunnudaginn, sem var stofnaður í gær. Marie-Loise segir að margir vilji að mótmælin haldi áfram á hverjum sunnudegi framvegis en það eigi allt saman eftir að koma í ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert