Ein helsta ástæðan fyrir fjölgun erlendra ferðamanna á Íslandi um 47% í síðasta mánuði er aukið sætaframboð á Keflavíkurflugvelli. Þannig jókst fjöldi flugsæta um 54% í febrúar á flugvellinum frá því í sama mánuði í fyrra. Sætin voru 591.544 talsins en í fyrra voru þau 383.612.
Þetta kemur fram í tölum frá Isavia.
Í tölum Ferðamannastofu kemur fram að Bandaríkjamönnum hafi fjölgað mest allra á milli ára í febrúar, eða um 12.574, og var aukningin 77%. Þetta er í takt við tölur Isavia um fjölda flugsæta til Bandaríkjanna en sú aukning nam einnig 77%. Sætin voru 138.572 í febrúar en á sama tíma í fyrra voru þau 78.421.
Að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia, hefur framboðið aukist hjá öllum flugfélögunum sem fljúga til Bandaríkjanna. Bandaríkjamennirnir fljúga að mestu leyti með Icelandair og WOW air en mikil aukning hefur orðið í flugi WOW air til landsins. Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines hóf að fljúga yfir Atlantshafið 12. febrúar í fyrra og því eykst framboðið þar á milli ára.
Í tölum Isavia yfir farþegafjölgun á Keflavíkurflugvelli kemur fram að hún hafi verið 50,11% meiri í febrúar en í sama mánuði í fyrra. Það er þremur prósentum hærra en tölur Ferðamálastofu kveða á um en meginmunurinn þar liggur í skiptifarþegum.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir samtökin hafi séð fyrir að aukningin á þessu ári í fjölda ferðamanna yrði fyrst og fremst yfir vetrarmánuðina. Tölur Ferðamálastofu séu í línu við það.
„Með þessari fjölgun yfir vetrarmánuðina er þessi árstíðarsveifla greinarinnar að minnka sem meðal annars eykur framleiðni greinarinnar til muna,“ segir Helga og bendir á að áætlanir hafi gert ráð fyrir um 25% fjölgun ferðamanna á þessu ári.
Hún segir að áætlanir hafi tekið mið af auknu framboði hjá flugfélögum og að tölur Isavia varðandi febrúar séu í takt við þá framboðsaukningu.
Spurð hvernig það muni ganga að taka á móti öllum ferðamönnunum kveðst Helga fagna auknum fjölda yfir þessa fyrstu mánuði ársins. „Þannig nýtast innviðirnir betur, bæði hvað varðar gistingu og aðra afþreyingu, svo eitthvað sé nefnt.“