Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss og formaður Samtaka iðnaðarins, segist vera ánægð með þau áform Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, að láta fara fram allsherjar úttekt á starfsemi lífeyrissjóðanna í landinu.
„Ég sem stjórnarformaður myndi taka vel í þær hugmyndir forsætisráðherra að sett verði gólf á erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða. Ég hef bæði talað fyrir því sem stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna og eins sem formaður Samtaka iðnaðarins. Það er orðið mjög knýjandi að taka mjög afgerandi skref í afléttingu hafta og hluti af þeirri vinnu gæti verið að setja gólf á fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis,“ sagði Guðrún.
Um þau orð forsætisráðherra í Morgunblaðinu á laugardag að lífeyrissjóðirnir væru orðnir mjög fyrirferðarmiklir í íslensku atvinnulífi sagði Guðrún, að það þyrfti ekki að koma neinum á óvart því sjóðirnir hafi verið með fjárfestingar sínar inni í lokuðu hagkerfi.