„Það er skiljanlegt að frestun vegaframkvæmda sé gagnrýnd,“ segir Jón Gunnarsson samgönguráðherra. Alls vantar 10 milljarða kr. svo hægt sé að fara í vegaframkvæmdir sem áformaðar voru í ár.
Þar má nefna veg um Teigsskóg vestra, Berufjörð og Dettifossveg. Því er mótmælt í ályktunum víða frá, að því er fram kemur í umfjöllun um skort á fé til samgöngumála í Morgunblaðinu í dag.
Að undanförnu hefur Jón Gunnarsson kynnt þá hugmynd að vegabætur næst höfuðborginni verði fjármagnaðar með vegtollum. Með slíku megi flýta framkvæmdum við vegi sem þá verði greiðfærari. Tollheimtunni verði stillt í hóf og innheimtustöðvar staðsettar þannig að best náist til ferðamanna.