Kaupgetan „hreinlega ekki til staðar“

Frost ríkti í byggingu íbúðarhúsnæðis á árunum eftir hrun.
Frost ríkti í byggingu íbúðarhúsnæðis á árunum eftir hrun. mbl.is/Árni Sæberg

Langvarandi lóðaskortur, hátt lóðaverð og mikill fjármagnskostnaður undanfarin ár hefur valdið því að aðilar, sem annars myndu leggjast í framkvæmdir, hafa fram til þessa ekki séð ávinning af því að hefja byggingu íbúðarhúsnæðis. Þetta segir Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar hjá Samtökum iðnaðarins.

Í samtali við mbl.is segir hann hvata til bygginga ekki hafa verið mikinn á árunum eftir hrun bankanna árið 2008.

„Í dag er svo komið að markaðsöflin eru búin að ráðast á þennan húsnæðismarkað þannig að verðið er orðið verulega hátt, enda framboð húsnæðis í lágmarki. Kaupgeta almennings, og einkum þeirra sem vilja kaupa sína fyrstu íbúð – hún er hreinlega ekki til staðar.“

Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar hjá Samtökum iðnaðarins.
Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar hjá Samtökum iðnaðarins.

Ráðherra og borgarstjóri ósammála um orsökina

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, sagði í samtali við mbl.is á mánudag að aukin eftirspurn á húsnæðismarkaði ætti ekki að koma sveitarfélögunum á óvart, enda hafi verið á henni áratuga fyrirvari.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, sagði þá í gær að ríkið hafi á undanförnum árum þrengt að möguleikum ungs fólks á húsnæðismarkaði. Leiðréttinguna svokölluðu, niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána, sagði hann hafa ýtt undir hækkanir á markaðnum og að lög um fjármálastofnanir og lánastarfsemi hafi þrengt heimildir til að lána fólki.

„Og ekki síst má nefna það að í kjölfar leiðréttingarinnar hafa vaxtabætur, sem hafa einmitt nýst því fólki sem er að koma nýtt inn á markaðinn, verið skornar niður verulega,“ sagði Dagur.

Lítið sem ekkert íbúðarhúsnæði reis á árunum eftir hrun bankanna.
Lítið sem ekkert íbúðarhúsnæði reis á árunum eftir hrun bankanna. mbl.is/Eggert

Framkvæmdaraðilar líti í eigin barm

Ljóst er því að menn eru ósammála um hvar sökin liggur, á þeirri stöðu sem upp er komin. Friðrik segist ekki vilja benda á einhvern einn sökudólg í þessum efnum, heldur sé orsökin samtvinnuð.

„Báðir þessir aðilar hefðu getað gripið inn í með einhvers konar úrræði þegar ljóst var að framkvæmdaraðilar treystu sér ekki til að byggja á árunum eftir hrun, enda byggingarkostnaður þá hærri en söluverð fasteigna,“ segir Friðrik.

„En það var ekki gert og það þýðir ekki að horfa endalaust í baksýnisspegilinn,“ bætir hann við.

Þá bendir hann á að framkvæmdaraðilar megi einnig líta í eigin barm og bæta skipulag á framkvæmdatíma til að auka framleiðni sína, ásamt því að halda framkvæmdakostnaði í lágmarki.

„Það verður að horfa til allra þátta, ekki bara opinberra aðila.“

Húsnæðismarkaðurinn reynist ungum kaupendum erfiður.
Húsnæðismarkaðurinn reynist ungum kaupendum erfiður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umfjöllunargjöld, úttektargjöld, veitugjöld...

Friðrik segir þá að sveitarfélög hafi hækkað lóðagjöld fram úr öllu hófi, en það eru þau gjöld sem falla til við byggingu húsnæðis, svo sem gatnagerðargjöld og byggingarleyfisgjöld.

„Svo eru öll þessi auka gjöld sem nú eru komin til sögunnar sem heita umfjöllunargjöld, úttektargjöld og veitugjöld [...] Þetta er alveg óheyrileg tala þegar upp er staðið.“

Þá nefnir hann að sveitarfélög taki nú inn í lóðagjöld kostnað við uppbyggingu skóla og leikskóla á viðkomandi svæðum. Sú þróun hafi hafist á  árunum 2006 og 2007, en áður hafi lóðagjöldin verið mun lægri.

„Takið þá þátt í kreppunni“

„Það er búið að hækka lóðagjöld á höfuðborgarsvæðinu um fleiri, fleiri hundruð prósenta frá árinu 2003. Þetta réttlættu sveitarfélögin með því að segja að inni í gjöldunum ætti að vera uppbygging á þessum atriðum sem ég nefndi, skólum og leikskólum.

En hvað með þá sem eru komnir á aldur, búnir að borga útsvar í tugi ára, eiga uppkomin börn og vilja byggja sér lítið einbýlishús? Af hverju þurfa þeir að borga uppbyggingu leikskóla og grunnskóla?“

Bersýnilegt segir Friðrik að sveitarfélögin hafi með þessu viljað taka þátt í góðærinu sem ríkti hér á landi fyrir bankahrunið. Gjöldin, sem hækkað hafi þá, hafi hins vegar ekki lækkað til baka eftir hrunið.

„Þess vegna hef ég sagt, allt í lagi, þið vilduð og fenguð hlutdeild í góðærinu. Takið þá þátt í kreppunni. En það hefur ekki verið hlustað á það.“

Ríki og sveitarfélög eru fær um ýmiss konar úrræði.
Ríki og sveitarfélög eru fær um ýmiss konar úrræði. mbl.is/Eggert

Ríki og sveitarfélög geta hjálpað

Þá segir hann að vilji ríki og sveitarfélög virkilega hjálpa þeim sem nú vilja kaupa sína fyrstu íbúð, sé þeim fjöldi úrræða tækur.

„Sveitarfélög gætu til að mynda afnumið lóðagjöld fyrir tiltekna íbúð, gegn því að hún sé sú fyrsta sem kaupandinn kaupir og að hann búi þar í tiltekinn fjölda ára. Ríkið gæti á sama tíma gert eitthvað annað á móti, til dæmis með hagræðingu skatta.

En ég er ekki að reyna að varpa fram endanlegri lausn. Aðalatriðið er að menn séu ekki að skjóta á hver annan, heldur að vinna saman að lausnum.“

Leita út fyrir höfuðborgarsvæðið

Í starfi sínu býr Friðrik yfir góðri sýn yfir stöðu mála um land allt. Því liggur beint við að spyrja hann hvort sveitarfélögin séu að standa sig misvel í þessum málaflokki.

„Það má eiginlega segja að höfuðborgarsvæðið sé orðið eins og eitt sveitarfélag og maður sér ekki mikinn mun þar á. En í öðrum sveitarfélögum hefur maður séð að það er verið að reyna að gera allt til að sporna við vandanum.

Enda, hver hefur þróunin verið síðustu ár? Fyrstu íbúðarkaupendur leita nú út fyrir höfuðborgarsvæðið, því þar eru íbúðir sem þeir hafa ráð á að kaupa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert