Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, dró í dag út vinningshafa í þriðja lestrarátaki Ævars vísindamanns en börnin sem tóku þátt í átakinu lásu yfir 63 þúsund bækur á tveimur mánuðum.
Krakkarnir fimm sem voru dregnir út verða gerðir að persónum í nýrri bók Ævars, Gestum utan úr geimnum, sem kemur út með vorinu. Þau eru Alexander Ferro úr Hörðuvallarskóla, Alexander Máni úr Fellaskóla, Anna úr Seljaskóla, Embla Maren úr Lágafellsskóla og Elenóra Mist úr Giljaskóla.
Þátttakendur í lestrarátakinu búa út um allt land og íslenskir krakkar búsettir erlendis létu sitt ekki eftir liggja; lestrarmiðar bárust frá Bandaríkjunum, Bretlandi, öllum Norðurlöndunum, Þýskalandi, Belgíu, Lúxemborg og Perú.