Ungt fólk sýnir streitueinkenni

Mikil keyrsla er á ungu fólki á menntaskólaaldri.
Mikil keyrsla er á ungu fólki á menntaskólaaldri. mbl.is/Eggert

Nemendur í framhaldsskóla eru duglegir við að nýta sér sálfræðiþjónustu sem er í boði innan skólans. Þeir eru almennt opnir með að tjá sig um vandamálin sem þeir standa frammi fyrir og gera kröfu um að vera hamingjusamir. Hins vegar eru þeir undir miklu álagi og áreitið er mikið. Brýnt er að móta stefnu og skoða heildrænt hvernig sálfræðiþjónusta eigi að vera í framhaldsskólum.  

Þetta kom fram í erindi Bóasar Valdórssonar, sálfræðings við Menntaskólann í Hamrahlíð, á fundi samtakanna Náum áttum um einmanaleika og sjálfskaðandi hegðun ungs fólks í morgun. Bóas var ráðinn tímabundið sem sálfræðingur við Menntaskólann í Hamrahlíð í 75% stöðu til að sporna gegn brottfalli og tók til starfa í haust.  

Segja já við öllu

„Ungt fólk sýnir mikil streitueinkenni. Þau vilja ekki sleppa neinu og segja já við öllu því það er svo margt skemmtilegt í boði. Þau eru að klessa á vegg út af áreiti og álagi,“ segir Bóas og bendir á að það eru ekki bara samfélagsmiðlarnir sem trufla og gjarnan eru nefndir í þessu samhengi. Hann segir að það megi heldur ekki gleyma því að nemendur eru komnir í þriggja ára nám sem áður tók fjögur ár. Þau eru með þétta dagskrá í skóla, íþróttum, tónlistarnámi og svo þurfa þau líka að sinna félögunum og taka þátt í félagslífinu.

„Ég spyr líka hverjar eru fyrirmyndirnar? Auðvitað er eðlilegt að vera með samviskubit þegar við náum ekki að klára öll verkefnin sem við tökum að okkur,” segir Bóas og bendir á að í starfi sínu þarf hann að takast á við fjölbreytt verkefni og mörg þeirra snúast ekki síður um að setjast niður með einstaklingnum og fara yfir verkefnin og forgangsraða.  

Bóas Valdórsson sálfræðingur í Menntaskólanum við Hamrahlíð.
Bóas Valdórsson sálfræðingur í Menntaskólanum við Hamrahlíð. mbl.is/Eggert

Eðlilegt að álag í miklum breytingum

„Mér finnst mjög jákvætt hvað þau eru opin og vilja sækja í stuðning. Þau eru búin að fá þau skilaboð um að þeim eigi að líða vel. Þau hafa alist upp við að hafa bæði pabba og mömmu og afa og ömmu með sé á íþróttaleiki til að styðja þau,“ segir Bóas sem fær að jafnaði um fimm til 10 tölvupósta á viku frá nemendum sem óska eftir aðstoð. 

Hann tekur fram að þegar ungt fólk er á framhaldsskólaaldri gengur það í gegnum stórt þroskaskeið og miklar breytingar sem fela í sér álag og allar þær tilfinningar sem þeim fylgja. Það er eðlilegt. „Oftast þarf það að fá viðurkenningu og stuðning á því sem það er að ganga í gegnum og ákveðinn skilning á sjálfan sig,“ segir Bóas. Hann tekur fram að það sé ekki markmið að búa til vandamál heldur þvert á móti sýna stuðning og benda á leiðir.

Starf sálfræðings við framhaldsskóla hefur fyrst og fremst forvarnargildi og hann veitir almenna þjónustu. „Við tökum ekki að okkur þjónustu sem heilbrigðiskerfið á að sinna eins og skólahjúkrunarfræðingurinn tekur ekki að sér skurðaðgerðir. Heldur beinum við fólki í rétta átt,“ segir hann. Í þessu samhengi bendir hann á að sálfræðingur sem starfar innan skólans þarf að búa yfir fjölbreyttri þekkingu.    

Þarf að móta stefnu 

Lítil hefð er fyrir starfandi sálfræðing á Íslandi í framhalds- og menntaskólum til samanburðar við grunnskóla. Starfandi sálfræðingar eru í hlutastarfi í nokkrum skólum á þessu stigi á landinu. Starf þeirra er ólíkt eftir skólum og er til dæmis í samstarfi við sveitarfélög. „Það er meiri vitundarvakning núna og meiri umræða um þessi mál,“ segir Bóas. 

Hann kallar eftir stefnumótun um sálfræðiþjónustu á þessu skólastigi og heildstæðri úttekt á þjónustunni. „Við þurfum að ákveða hvert við stefnum og hvað við viljum. Sérstaklega þurfum við að búa til námsefni sem eru verkfæri sem við getum notað og nýtist breiðum hópi nemenda á þessum aldri,“ segir Bóas.  

Hann vill að ráðinn sé sálfræðingur inn í alla skóla. Hann er hins vegar bjartsýnn og tekur fram að í nýjum ríkissáttmála er kveðið á um sálfræðiþjónustu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert