58% andvíg vegatollum

Meirihluti Íslendinga er á móti vegatollum.
Meirihluti Íslendinga er á móti vegatollum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Um 58% Íslendinga eru á móti vegatollum, sem notaðir yrðu til uppbyggingar á vegakerfinu á því svæði á Íslandi sem þeir yrðu innheimtir á meðan um 42% segjast vera hlynnt þeim. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu.

Í boði voru tveir mismunandi valkostir fyrir þá sem sögðust vera hlynntir. Annars vegar segjast á billinu 29-30% af öllum vera hlynnt vegatollum til uppbyggingar á vegakerfinu aðeins þar sem maður hefur val um aðra leið, og hinsvegar segjast á bilinu 12-13% vera hlynnt vegatollum til uppbyggingar á vegakerfinu óháð því hvort maður hefur val um aðra leið eða ekki.

Skiptar skoðanir eru á þessu máli eftir því hvar fólk býr. Sunnlendingar og Reyknesingar eru helst á móti vegatollum, eða slétt 73%, en aðeins 50% Reykvíkinga. Einnig er munur á milli svarenda eftir menntun en þar eru á milli 72 og 73% þeirra aðeins með grunnskólapróf á móti vegatollum en á billinu 54-57% þeirra sem hafa lengri skólagöngu. Síðast en ekki síst er munur á skoðunum svarenda eftir því hvaða flokk þeir myndu kjósa. Píratar eru einna helst á móti vegatollum, eða slétt 71%, en kjósendur Bjartrar framtíðar eru minnst á móti vegatollum, eða rúmlega 32%.

Svarendur, 888 manns, eru úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá. Könnunin fór fram dagana 24. febrúar til 6. mars 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert