Engar hvalveiðar verða á vegum Hvals hf. í sumar. Að sögn Kristjáns Loftssonar, framkvæmdastjóra Hvals, eru helstu ástæður þessa endalausar hindranir í Japan við innflutning á hvalaafurðum, en Japan er helsta markaðslandið fyrir hvalaafurðir.
Þá segir Kristján að sterkt gengi íslensku krónunnar hafi líka áhrif í þessum efnum og minna fáist nú fyrir útflutning en ella.
Sumarið 2015 veiddu hvalveiðibátarnir 155 langreyðar á vertíðinni og unnu þá um 150 manns við hvalveiðar og vinnslu afurða hjá Hval hf. Engar hvalveiðar voru stundaðar af hálfu fyrirtækisins síðasta sumar og sagði Kristján Loftsson þá í samtali við Morgunblaðið að fyrirtækið hefði mætt endalausum hindrunum við að koma hvalaafurðum á markað í Japan.
Hann segir að engar breytingar hafi orðið á þessu þrátt fyrir að sendiráð Íslands í Japan hafi rætt við stjórnvöld þar í landi í mörg ár og íslenskir ráðherrar hafi tekið málið upp við kollega sína í Japan. Einnig hafi verið haldnir fundir í Japan með embættismönnum og sérfræðingum frá Íslandi og Noregi. Enn hafi engin endanleg niðurstaða komið út úr þeim viðræðum.
Kristján segir að hindranirnar felist í því að Japanir noti m.a. yfir 40 ára gamlar rannsóknaraðferðir við efnagreiningar, sem hvergi séu notaðar annars staðar í heiminum. Þessi framkoma Japana sé í andstöðu við alþjóðasamninga eins og CODEX og hafi kostað Hval hf. fjárhagslegt tjón og tafið afhendingu afurða.
Kristján segir að frá árinu 2009 hafi Hvalur hf. flutt út ýmsar hvalaafurðir af um 680 langreyðum. Af þessum afurðum hafi verið tekin, á Íslandi og í Japan, um 20 þúsund sýni til rannsókna með tilheyrandi kostnaði og töfum. aij@mbl.is