Það þarf að ræða og ákvarða þolmörk staða, landsvæða og að endingu þolmörk landsins þegar það kemur að ferðaþjónustu og líta til allra þátta sjálfbærni. Þetta kom fram í ræðu Ara Trausta Guðmundssonar, þingmanns VG, á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um aðgangsstýringu í ferðaþjónustu.
Ari sagði að yfirlýst stefna væri sú að ferðaþjónustan hér á landi verði ávallt sjálfbær „og hér merkir stefna bæði markmið og leiðir, ekki bara markmið eins og mikið af stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar einkennist af,“ sagði Ari Trausti og bætti við að sjálfbærni kalli á stýringu í auðlindanotkun, í ferðaþjónustu líkt og í landbúnaði eða sjávarútvegi og að stýringin snúis að minnsta kosti um þrenns konar viðbrögð.
Nefndi hann í fyrsta lagi ákvörðun á þolmörkum staða. „Hingað til hefur nær algjörlega skort á umræðu um þolmörk og hugtakið er að mestu fjarri allri stefnumótun,“ sagði Ari Trausti. Þá þarf í öðru lagi aðgangsstýringu til þess að dempa álag og dreifa því. Það fæst þó ekki nema að hluta með bílastæðagjöldum, gistináttagjöldum, aðgangseyri að stöðum eða þjóðgörðum, heldur ekki með nauðsynlegum komu- eða brottfarargjöldum.
„Ástæðan er einföld, gjöldin verða of lág miðað við háan ferðakostnað til landsins og innan lands. Gjaldtaka er þar með aðeins lítill þáttur aðgangsstýringar þegar á heildina er litið. Gjaldtaka hjálpar til við að lagfæra skemmdir, stýra umferð á vegum og inni á landsvæðum með stígagerð o.fl. og kosta úrbætur aðrar, en stýrir ekki fjölda ferðamanna eða hægir svo um munar á vexti í greininni. Aðgangsstýring felst fyrst og fremst í að framfylgja þolmörkunum sem ég ræddi með ákvörðun um ítölu gesta og með því að hafa nægan, menntaðan mannafla sem landverði af tvennum toga,“ sagði Ari.
Þá nefndi hann í þriðja lagi að stjórnun og samþætting margra þátta þurfi að vera skilvirk. „Stjórnstöð ferðamála er samráðsvettvangur. Henni er ekki ætlað að taka yfir ábyrgð og skyldur stjórnkerfisins eða hagsmunasamtaka. Henni er stjórnað af fjórum uppteknum ráðherrum og hún mun bara starfa til ársins 2020. Og hvað tekur þá við?“ spurði Ari Trausti.
„Það hefði átt að hefja vandaðan undirbúning að stofnun ráðuneytis á síðasta kjörtímabili og koma því svo á laggirnar, t.d. við stjórnarskipti. Ástandið í ferðaþjónustunni heilt yfir er ámælisvert að mati mjög margra aðila innan hennar og utan, hvort sem er ferðaþjónustufyrirtækja eða álitsgjafa. Gagnrýni kemur æ oftar fram meðal ferðamannanna sjálfra. Það verður því að koma þessum málum í viðunandi horf á skömmum tíma.“
Bætti hann við að ef hann segði að hæfilegur fjöldi ferðamanna, hæfilegur í þágu langflestra, samfélagsins, fyrirtækja, stofnana og ferðamanna, sé 3–4 milljónir á ári væri það hrein ágiskun.
„Viljum við vinna þannig og treysta á óljósa sjálfstýringu og samkeppni? Viljum við áfram rekast á hindranir, vandamál og öfugþróun þegar stærsta atvinnugreinin er í húfi af því að við stundum ekki ábyrg vinnubrögð við náttúru- og samfélagsnytjar? Sjálfbær ferðaþjónusta í sátt við landsmenn byggir varla á 8–10 milljónum ferðamanna á ári eða svo. Við höfum heyrt þá tölu, það er örugglega ekki ósk okkar allra,“ sagði Ari Trausti.
Næst í pontu var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.
Hún þakkaði Ara Trausta fyrir að vekja máls á þessum mikilvægu viðfangsefnum og sagðist geta tekið undir nánast allt sem hann fór yfir í ræðu sinni.
Sagði hún brýnt að tryggja sjálfbærni ferðaþjónustunnar á þessu mikla vaxtaskeiði.
„Okkur hefur tekist vel til við að taka á móti ferðamönnum en innviðir hafa ekki fylgt vextinum nægilega hratt eftir,“ sagði Þórdís og benti á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlinda og uppbyggingu innviða sem er nauðsynleg til að tryggja að þessi grein haldi áfram að þróast í sátt við náttúru og samfélag.
„Langtímastefna um sjálfbæra ferðaþjónustu kallar á áreiðanlega og alþjóðlega samanburðarhæf gögn og mælikvarða sem nokkuð vantar upp á að séu fullnægjandi. Fyrir því hef ég talað. Er ætlunin m.a. að þróa sjálfbærni vísa og bæta svæðisbundna tölfræði sem hefur skort. Ein tegund rannsókna sem aukið fé hefur verið veitt í á síðustu árum er þolmarkarannsóknir sem gefa skýrari mynd en áður af stöðu mála hvað varðar þolmörk ferðamanna og íbúa umhverfis,“ sagði Þórdís.
Sagði hún að á vinsælum og viðkvæmum stöðum þurfi að stýra aðgenginu eins og við á til að vernda náttúru og minjar, dreifa álagi og bæta öryggi.
„Þeir sem bera ábyrgð á og hafa með höndum umsjón með hverjum stað fyrir sig eru almennt best til þess fallnir að meta hvernig þessari stýringu er háttað í krafti þekkingar sinnar á aðstæðum á hverjum stað. Slíkri stýringu má ná fram með ýmsum leiðum, svo sem göngupöllum, merkingum, fræðslu, aukinni landvörslu og stýringu á borð við einstefnu gönguleiða. Ég tel þó að við þurfum að ganga lengra á stöðum þar sem farið er að reyna á þolmörk og stýra aðgenginu með ákveðnari aðgerðum í samráði við ábyrgðar- og umsjónaraðila á hverjum stað. Þar koma fjöldatakmarkanir og/eða gjaldtaka til greina,“ sagði Þórdís og bætti við að til skoðunar væri að koma á svipuðu aðgangsstýringarkerfi og í fremstu þjóðgarðsstofnunum erlendis þar sem gjöld eru innheimt fyrir afnot af takmarkaði auðlind sem gerir stöðunum kleift að stýra umferð og afla tekna.
„Þannig axla fyrirtækin ábyrgð í þágu sjálfbærnimarkmiða í samstarfi við ríkisvaldið og það á samkeppnisgrundvelli en ekki á of íþyngjandi hátt,“ sagði Þórdís.