Hópur þjóðþekktra samkynhneigðra karlmanna prýðir nýjustu auglýsingu Epal sem birtist í Fréttatímanum á morgun. Þar má sjá þá Albert Eiríksson, Bergþór Pálsson, Guðfinn Sigurvinsson, Símon Ormarsson, Friðrik Ómar Hjörleifsson og Svavar Örn Svavarsson dást að húsgögnum í versluninni.
Þóra Tómasdóttir, einn ritstjóra Fréttatímans, deildi auglýsingunni í dag á Facebook-síðu sinni og segir hana „meistaralegt svar Epal“ við þrasi vikunnar. En „Epal-hommarnir“ var lýsing sem kom upp í deilum sem sköpuðust í kjölfar viðtals sjónvarpsmannsins Sindra Sindrasonar við Töru Margréti Vilhjálmsdóttur, formann Samtaka um líkamsvirðingu, í vikubyrjun.
„Það eru allir velkomnir í Epal, eru það ekki bara skilaboð dagsins?“ sagði Eyjólfur Pálsson eigandi Epal þegar mbl.is spurði hann um tildrög auglýsingarinnar.
Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Brandenburg, sem hannaði auglýsinguna, segir að markmiðið hafi verið að koma með svar frá Epal við „dægurþrasinu“ sem hafi verið í vikunni. „Þegar það myndast svona umræða og Epal dregst inn í hana þá verða menn bara að taka þessu á léttu nótunum og hafa gaman af,“ útskýrir hann
„Við erum aðallega að fagna glæsileikanum. Þetta eru allt saman fagurkerar sem hafa gaman af góðri hönnun og húsgögnum.“ Ragnar segir lítið mál hafa verið að fá þessa þjóðþekktu einstaklinga til að vera með í auglýsingunni. „Þeim fannst þetta bara skemmtilegt og hugmyndin sniðug, þannig að þeir hoppuðu allir á vagninn og voru meira en til í að vera með.“