Guðmundar- og Geirfinnsmálið er mesta sakamál seinni tíma á Íslandi. Þeir Guðmundur Einarsson og Geirfinnur Einarsson hurfu með tíu mánaða millibili á árinu 1974 og hafa aldrei fundist. Málið sem tengt er nöfnum þeirra hefur verið fréttaefni á ári hverju í 43 ár, nú síðast á dögunum þegar endurupptökunefnd féllst á endurupptöku á málum fimm sakborninga.
Réttarhöld í Guðmundar- og Geirfinnsmáli fóru fram í tvennu lagi. Í undirrétti, þ.e. Sakadómi Reykjavíkur, stóðu réttarhöldin yfir dagana 3. til 7. október 1977. Við lok réttarhaldanna nýtti Sævar Marinó Ciesielski rétt sinn til að ávarpa dómendur, sem voru sakadómararnir Gunnlaugur Briem, Ármann Kristinsson og Haraldur Henrýsson.
Höfundur þessarar greinar sat réttarhöldin fyrir Morgunblaðið og birtist endursögn af ræðu Sævars í blaðinu daginn eftir. Er sú mynd í fersku minni þegar þessi lágvaxni og granni maður flutti ræðuna fyrir framan dómarana, blaðalaust og óhikað. Þetta var klukkan 20.30 að kvöldi síðasta dags réttarhaldanna. Hafa verður í huga að þarna hafði Sævar verið í einangrun í Síðumúlafangelsinu í tvö ár. Sem betur fer væri slík meðferð óhugsandi í dag.
Ræða Sævars var svona í endursögn: „Það sem er að gerast í þessu máli er hlutur sem er að gerast og hefur gerzt um allan heim. Saklaust fólk er látið játa á sig rangar sakir og svo er því kúplað út úr þjóðfélaginu. Þetta gerðist í Rússlandi 1937 og þetta hefur víða gerzt. Þetta er mjög slungið og furðulegt mál allt saman og ákærurnar í minn garð eru þungar. Ákæruvaldið krefst ævilangs fangelsis yfir mér. Það getur krafizt þess sem því sýnist. Ég lýsti því yfir i upphafi að ég væri saklaus og ég stend við þann framburð.“ Sævar sagði í varnarræðu sinni að dvölin í fangelsinu væri ekkert sældarbrauð. „Ég hef hýrzt i 700 daga innilokaður í klefa, sem er aðeins 2x2,5 metri. Við, sem erum ákærð í málinu, höfum orðið fyrir líkamlegu ofbeldi. Lögregla hefur ráðizt að okkur af engu tilefni, þetta hef ég oft horft upp á í gegnum árin, og nú eru þessir menn að yfirheyra okkur. Það sem upp úr okkur hefur komið eru játningaþulur, ekkert annað. Þetta er heilaþvottur, þetta er andleg píning.“
„Virðulegu dómarar, það er ykkar að dæma, verið skynsamir,“ voru lokaorð Sævars.
Dómur var kveðinn upp 19. desember 1977 og voru þeir Sævar og Kristján Viðar Viðarsson dæmdir í ævilangt fangelsi, sem var fáheyrt.
Með orðalaginu ævilangt fangelsi var átt við fangelsisvist þar til ævi viðkomandi lýkur, eins og felst í orðunum, nema dómsmálaráðherra láti fangann lausan til reynslu á refsitímanum eins og honum er heimilt lögum samkvæmt. Það hafði ekki gerst áður á þessari öld a.m.k. að maður væri dæmdur til lengri fangelsisvistar en 16 ára.
Málið gekk síðan til æðsta dómsstigs, þ.e. Hæstaréttar. Málflutningur stóð yfir frá 14. janúar til 23. janúar 1980.
Við lok réttarhaldanna í Hæstarétti nýttu þrjú hinna ákærða sér rétt sinn til að ávarpa dóminn, þ.e. Sævar Marinó, Kristján Viðar og Erla Bolladóttir. Ræða ákærða, Sævars Marinós Ciesielski, var lengst og hér á eftir er hluti hennar í endursögn greinarhöfundar eins og hún birtist í Morgunblaðinu 24. janúar 1980:
„Ég hef fylgst með málflutningi í máli því, sem höfðað var gegn mér og nú er komið að leiðarlokum. Vil ég fá tækifæri til þess að andmæla ákæruvaldinu. Ég hef aldrei þekkt þá menn, sem mér er gefið að sök að hafa orðið að bana. Nöfn þeirra eru mér jafn fjarri og í upphafi. Mál það, sem hér er fjallað um, hefur sett mark sitt á allt mitt líf og það hefur orðið mikil raun fyrir mig og ættingja mína. Ég er ennþá í gæzluvarðhaldi og hef verið í einangrun á meðan ég hef fylgst með málflutningnum. Ég var í gæzluvarðhaldi í Síðumúlafangelsinu í tvö ár og tel að ég muni aldrei ná mér eftir það. Allan þennan tíma fékk ég ekki skriffæri, lesefni, tóbak, jafnvel ekki sængurver, bara tvö ullarteppi. Ég veit ekki ástæðuna fyrir þessari framkomu gagnvart mér, ég hef enn ekki fengið á því skýringu. Ég undirritaði tvær skýrslur í Guðmundarmálinu en dró þær til baka. Ég var tímunum saman í yfirheyrslum en var bannað að tala við verjanda minn í tvo mánuði. Ég vildi bera fram kæru en hún komst aldrei alla leið. Það var ekkert hlustað á mig.
Ég var yfirheyrður dag eftir dag en það er erfitt fyrir ykkur sem hér eruð að setja ykkur í mín spor. Ef Hæstiréttur telur mig sekan vil ég segja þetta að lokum: Nú er mál komið að vér göngum héðan. Ég fer til að deyja, þér til þess að lifa. Hvorir okkar fara betri för er öllum hulið nema guðunum einum. (Lokaorðin úr varnarræðu Sókratesar.)
Hér fer á eftir endursögn af ræðu Erlu Bolladóttur: „Það er ógerlegt að bæta nokkru við það, sem fram hefur komið hjá sækjendum og verjendum í þessu máli, þið hafið miklu meiri þekkingu á lögunum en ég. Ég vil aðeins segja það, að málið hefur haft djúpstæð áhrif á mig og það lá við, að ég vildi vera orðin önnur persóna. Reynslan hefur verið ómetanleg og það tekur mig sárt að hafa valdið öðrum þjáningum. Þegar aðrir ákærðu tóku til máls fannst mér það áberandi að þegar vissir menn reyndu að tala var ekki á þá hlustað, þeir hafa talað fyrir daufum eyrum og meira mið tekið af bókunum og skjölum en mönnunum sjálfum. Ég hef aftur á móti alltaf fengið áheyrn. Í dag er það mín einlæga von að sannleikurinn komi í ljós fyrr eða síðar og ég treysti því að ég uppskeri eins og ég sáði.“
Hér fer á eftir endursögn á ræðu ákærða, Kristjáns Viðars Viðarssonar, í Hæstarétti:
„Ég vil lýsa því yfir, að ég er saklaus af ákærum um að hafa orðið Guðmundi Einarssyni og Geirfinni Einarssyni að bana. Geirfinn hef ég aldrei augum litið. Hins vegar þekkti ég Guðmund Einarsson sem barn en hef engin afskipti haft af honum síðan. Ég er saklaus af ákærum um rangar sakargiftir. Ég gaf ekki upp nöfn mannanna, sem settir voru í gæzluvarðhald. Lögreglan gaf þau upp og þvingaði mig til þess að setja þau í skýrslur mínar með hótunum um líflát. Ég þekki ekki þessa menn og hef ekkert út á þá að setja. Ég hef aldrei gert þeim neitt né þeir mér. Að lokum vil ég segja, að ég treysti þessum dómi til þess að fjalla um málið hlutlaust.“
Hæstiréttur kvað upp dóm sinn 22. febrúar 1980 og mildaði dóma Sakadóms Reykjavíkur.
Refsing Sævars var stytt úr lífstíðarfangelsi í 17 ára fangelsi.
Refsing Kristjáns Viðars var stytt úr lífstíðarfangelsi í 16 ára fangelsi.
Refsing Tryggva Rúnars Leifssonar var stytt úr 16 ára fangelsi í 13.
Refsing Guðjóns Skarphéðinssonar var stytt úr 12 ára fangelsi í 10.
Refsing Erlu Bolladóttur var óbreytt, þriggja ára fangelsi.
Refsing Alberts Klahn Skaftasonar var stytt úr 15 mánaða fangelsi í 12 mánaða fangelsi.
Í öllum tilvikum kom gæsluvarðhaldsvist ákærðu til frádráttar.