Rio Tinto, eigandi álversins í Straumsvík, lýsti því yfir í janúar 2007, fyrir rúmum tíu árum, að þynningarsvæði álversins yrði minnkað um 70%, vegna þess að gríðarleg þróun hefði orðið í mengunarvörnum. Síðan hefur ekkert gerst.
Ólafur Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar, segir að bæinn vanti hluta þess svæðis sem er á þynningarsvæðinu og því verði nú gerð úttekt og samanburður á þynningarsvæðum við álver í Hvalfirði og á Reyðarfirði.
„Það varðar mikla hagsmuni hjá Hafnarfjarðarbæ að þynningarsvæðið verði minnkað... Við höfum þurft að synja fyrirtækjum um lóðir og rekstrarleyfi vegna þess að svæðið hefur enn ekki verið minnkað,“ segir Ólafur Ingi í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að fátt hafi verið um svör hjá Rio Tinto þegar bæjarfulltrúar Hafnarfjarðar hafi hitt fulltrúa fyrirtækisins að máli og spurt út í áform um minnkun svæðisins.