Bann við Airbnb lausn á vandanum

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, telur bann við Airbnb-íbúðum …
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, telur bann við Airbnb-íbúðum geta leyst skortinn á litlum og meðalstórum íbúðum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Mér fannst ég bara vera að segja hið augljósa. Þetta er gert í öðrum löndum, mér er t.d. sagt að þetta hafi verið gert í Berlín,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs í samtali við mbl.is. Haft var eftir honum í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að banna ætti Airbnb á ákveðnum svæðum til að tryggja eðlilegt framboð af litlum og meðalstórum íbúðum á húsnæðismarkaði.

Ármann nefnir að á sama tíma og lítið framboð sé af íbúðum í sölu og almennri útleigu komi fram í nýlegri skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustuna að yfir 2.000 íbúðir séu í stöðugri Airbnb-útleigu í Reykjavík. Þá sýnist honum það sama eiga við um 300 íbúðir í Kópavogi.  

„Sveitarfélögin hafa vissulega miklar áætlanir um uppbyggingu, en hún mun alltaf taka tíma og hjálpar lítið þeim sem eiga erfitt með að finna sér húsnæði í dag,“ segir Ármann. Á sama tíma hafi ferðamönnum sem koma til landsins fjölgað gríðarlega.

Húsnæðisskorturinn bráðavandi

„Er eðlilegt að vera ekkert að spá í þessa heildarmynd?“ spyr hann. „Ef okkur er alvara með að við teljum húsnæðiskortin vera bráðavanda og að við viljum létta undir með unga fólkinu okkar, þá er bara ein leið til að gera það til skamms tíma,“ segir Ármann. 

Hann nefnir að væri Airbnb bannað á stórum hluta höfuðborgarsvæðisins myndi slíkt bann líka mögulega ýta undir að ferðamenn dreifðust meira út fyrir höfuðborgina. 

Ármann bætir við að það megi einnig setja spurningarmerki við starfsemi af þessu tagi sem litlar sem engar reglur séu um, á sama tíma og strangar reglur gilda um hótel- og veitingastaðarekstur. 

Hann segir húsnæðismál leiguíbúða verða meðal umræðuefna á stjórnarfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) næsta mánudag. „Þau voru á dagskrá síðast, en komust ekki inn á málaskrá vegna annarra mála. Núna er því haldinn aukafundur og þar erum við að fara að ræða stóru myndina og við munum taka málefni Airbnb inn í það púsl,“ segir Ármann og kveður vanta heildarsýn og -stefnu þar sem sveitarfélög, ríkið, ferðaþjónusta, fjármálafyrirtæki og fleiri komi að í þessum málum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert