Guðni Th. ræddi um tilvistarvanda

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hélt fyrirlestur.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hélt fyrirlestur. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Þjóðin og fræðin. Nokkur orð um tilvistarvanda sagnfræðings sem varð forseti.“ Nefnist hátíðarfyrirlestur sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hélt á Hugvísindaþing sem hófst í dag. Ræða Guðna fer hér að neðan í heild. Í henni fjallaði Guðni m.a. um forsetaframboð sitt og sjónarmið sín um þorskastríðin sem urðu bitbein í baráttunni.

Guðmundur Hálfdanarson, forseti hugvísindasviðs, setti þingið kl. 12 í dag í Hátíðasal Háskóla Íslands. Þingið er fjölbreytt og í boði verða 42 málstofur um margvísleg efni og stendur yfir til kl. 16.30 á morgun.

Tungumálið, trúarbrögð og bókmenntir eru dæmi um forvitnileg málefni sem vera rædd á þinginu. Aðgangur er öllum opinn. Sjá dagskrá hér.   

Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.
Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Ræða Guðna forseta í heild:

 Sú var tíð að forystumenn þjóða og sagnfræðingar stóðu saman í fylkingarbrjósti. Víða í Evrópu á nítjándu öld og fram á þá tuttugustu var gengið út frá því að sagnaritarar ættu að hafa í heiðri málstað þjóðar sinnar, minna hana á afrek forfeðranna, oftar en ekki gegn illvígum fjendum, sýna fram á mátt einingarinnar og brýna fólk til frekari dáða. Hér á Íslandi var Jón forseti í þessum flokki.

Síðar kom til sögunnar Jón Jónsson Aðils og lokaorð hans í Gullöld Íslendinga, því víðlesna fyrirlestrariti, fanga þennan anda vel: „Þá rækja menn bezt minning hinna látnu er þeir taka þá sér til fyrirmyndar í öllu fögru og hefja merki þeirra hátt á framsóknarbrautinni. Minning feðranna er framhvöt niðjanna.“

Upp úr miðri síðustu öld voru þessi sjónarmið enn ríkjandi á Íslandi. Áhrifamiklir og ólíkir stjórnmálamenn hömpuðu þeim svo eftir var tekið, Jónas frá Hriflu, Einar Olgeirsson, Ólafur Thors og fleiri skörungar. Sagnfræðingar voru fáir, þeir lifðu og hrærðust í heimi sem kallaðist íslensk fræði, og sitthvað var til í því sem Halldór Laxness skrifaði í Skáldatíma: „Oft hefur mér fundist að sagnfræðíngum okkar dytti helsti fátt í hug. Tröllpíndir af hefð hneigjast þeir mest til að rekja sögur eftir þjóðhetjuformúlunni.“

Síðan varð breyting, í raun bylting. Akademískir sagnfræðingar losnuðu undan oki sjálfstæðisbaráttunnar og samstöðusögunnar. Við tók endurskoðun. Í stað einingar komu ólíkir hagsmunir stétta og einstaklinga, í stað einnar sögu komu margar sögur. Allt gerðist þetta að mestu í takt við keimlíka þróun annars staðar á Vesturlöndum þótt þróunin hafi líklega verið ögn hægari hérlendis.

Inn í þetta umhverfi steig ég. Fyrst gerði ég landhelgismál og þorskastríð að sérsviði mínu. Þau átök voru framhald sjálfstæðisbaráttunnar í augum margra Íslendinga, frækileg barátta þar sem við stóðum saman, öll sem eitt. Sumir í fræðunum sperrtu eyrun þegar ég lét þarna til mín taka. Voru ekki aðrir búnir að helga sér þetta svið; var frá einhverju nýju að segja? Þá hljóp manni bara kapp í kinn. Nú skyldi hetjusagan afhelguð. Það var metnaðarfullur ungur sagnfræðingur sem lauk fyrirlestri á Söguþingi árið 2002 sem síðan birtist á prenti með þessum orðum:

Hefur það langur tími liðið frá lokum þorskastríðanna að Íslendingar geti vegið þau og metið á sama hátt og menn hafa til dæmis verið að endurskoða sjálfstæðisbaráttuna? „[B]aráttunni fyrir sjálfstæði Íslands er lokið,“ sagði Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðiprófessor til dæmis um miðjan síðasta áratug. Hetjuljóminn sem einkenndi sjálfstæðissöguna á ekki lengur við, enda má líka vitna í þau orð Guðmundar að frekari skrif um sjálfstæðisbaráttuna á næstu árum muni „að öllum líkindum reka síðasta naglann í líkkistu einingarsögunnar“. Saga þorskastríðanna þarf á svipaðri endurskoðun að halda. Þetta greinarkorn er að því leyti einn lítill nagli í líkkistuna fyrir einingar- og hetjusögu þeirra. Þorskastríðunum er lokið.

Árin liðu. Ég gerði að umfjöllunarefni þann mun sem ríkti gjarnan milli söguskoðunar almennings og valdhafa annars vegar, og fræðasamfélagsins svonefnda hins vegar. Fólkið í landinu býsnaðist yfir sjálfumglöðu fræðafólki í fílabeinsturni. Í háskólunum kvörtuðu sumir aftur á móti undan því að fávís lýðurinn fylgdist ekki með nýjustu straumum og stefnum.

Ég fjallaði líka um afstöðu ýmissa ráðamanna til fortíðar Íslendinga. Mér fannst þeir gjarnan sjá söguna í rómantísku ljósi, að þeir tækju sér til fyrirmyndar löngu gengna menn með löngu úreltar skoðanir, í stað okkar hinna sem hefðum tekið söguna til gagngerðrar endurskoðunar, værum í fararbroddi fræðanna og nytum þá ferskra vinda að utan.

Öll þessi skrif féllu í kramið í fræðasamfélaginu. Meðal almennings varð ég ekki var við mikinn uppsteyt en sumir valdhafar gagnrýndu fræðafólk sem gerði lítið úr liðnum afrekum þjóðarinnar. Þau orð tók ég stundum til mín en hertist í þeirri skoðun að sumir ráðamenn væru bara allt of rómantískir í anda Jóns forseta, Jóns Aðils og Jónasar frá Hriflu. Þeir smíðuðu ímyndaða sögu einingar og hetjudáða og notuðu hana sem vopn til að sameina þjóðina.

Svo fór ég í framboð. Í kosningabaráttunni fyrir forsetakjör í fyrrasumar kom í ljós að þorskastríðunum var ekki lokið, ekki frekar en sjálfstæðisbaráttunni. Fyrir þann sem sækist eftir því að gegna embætti þjóðhöfðingja er ekki endilega gott veganesti að hafa talað um Íslandssöguna eins og ég hafði stundum gert. Afstaða mín þótti orka tvímælis og þeir voru til sem tóku enn dýpra í árinni. Af ýmsu er að taka en fólk sagði til dæmis að gert væri of lítið úr baráttu smáþjóðar fyrir afkomu sinni, liðsmenn Landhelgisgæslunnar lítilsvirtir og meint sérfræðiþekking á liðinni tíð væri lítils virði, eins og einn komst að orði: „Maður sem hefur setið á skólabekk alla sína tíð og verið vafinn akademískri bómull er ekki líklegur til að vera í tengslum við fólkið í landinu né söguna, jafnvel þótt hann kalli sig sagnfræðing.“

Nú er það gjarnan svo að tekist er á í hita leiksins og síðan eru sverðin slíðruð. Margir þeirra sem fundu að mínum skoðunum hafa síðar óskað mér velfarnaðar og tekið mig í sátt. Fyrir okkur hugvísindafólk er hins vegar brýnt að yppta ekki bara öxlum eða gera lítið úr þeim sem eru okkur ósammála.

Höfðu þeir sem gagnrýndu mig – og gagnrýna aðra í háskólasamfélaginu fyrir þeirra skoðanir – eitthvað til síns máls? Hefur myndast gjá, gjá milli hugvísindaþings og þjóðar? Fyrir um áratug taldi einn ungi sagnfræðingurinn að stundum hefði „ákafi sagnfræðinga við að greina þjóðernisstefnuna og hafna hinni þjóðernislegu söguskoðun verið helst til mikill“. Einnig má spyrja hvort sú áhersla sem lögð er á nýjungar og ferska sýn á söguna á akademískum vettvangi geti ekki gengið of langt; erlendur sagnfræðingur hefur kallað það „nýjungaþráhyggju“ (e. „obsession with novelty“). Í þessu samhengi leyfi ég mér líka að nefna gamansögu sem er í miklu uppáhaldi hjá mér: Það bar til fyrir nokkrum árum að Sagnfræðingafélagið hafði blásið til fundar um „endalok þjóðernishyggjunnar“ eða eitthvað í þeim dúr en varð að fresta honum þegar til átti að taka. Ástæðan var sú að kvöldið, sem til stóð að koma saman og ræða þetta efni í þaula, áttu „strákarnir okkar“ í handboltanum mikilvægan leik á einhverju stórmótinu.

Ég nefni líka starfsvettvang okkar, háskólana, og æskilegustu framleiðsluna að mati þeirra sem leggja mat á störf akademísks starfsfólks: fyrirlestra á ráðstefnum og málþingum á akademískum vettvangi, fræðigreinar í ritrýndum tímaritum, bækur hjá virtum erlendum fræðaforlögum. Þessi vinna er bráðnauðsynleg en dugar ekki til ein og sér. Ég leyfi mér að vitna aftur í orð sem mér eru kær. Þegar handritin komu heim vorið 1971 sagði Kristján Eldjárn, einn forvera minna í embætti forseta, í útvarpsávarpi: „Og saman verður að fara vísindaleg rannsókn, sem er undirstaðan, og alþýðleg kynning. Allar þjóðlegar minjar, hvort sem eru bækur eða annað, verða að ná til fjöldans, og það geta þær ekki nema fyrir meðalgöngu fræðimannanna. Þeirra hlutverk er því mikið, vandasamt og göfugt.“

Ég er viss um að sjónarmið mín um þorskastríðin hefðu ekki orðið eins mikið bitbein ef mér hefði auðnast að ljúka því verki sem ég hef lengi unnið að, að skrifa sögu þessara átaka í bókum sem væru beinlínis ætlaðar almenningi og næðu til fjöldans. Þar hefði ég sagt hina dramatíska sögu, hvernig varðskipsmenn máttu teljast heppnir að missa ekki lífið í atlögum breskra freigáta og dráttarbáta, hvernig einn þeirra lést þegar hann var að gera við skemmdir að lokinni ásiglingu, en líka hvers vegna ekki ætti að flokka atganginn undir stríð samkvæmt skilgreiningum um eðli slíkra átaka, enda myndu sumir skipherrar og aðrir liðsmenn Landhelgisgæslunnar viðurkenna fyrstir manna að hefðu Bretar beitt sínum stríðstólum af öllu afli hefðu lyktir á miðunum orðið aðrar. Það myndi leiða okkur að útskýringum á því hvers vegna svo fór sem fór og þá þarf að taka með í reikninginn hernaðarmikilvægi Íslands í kalda stríðinu, þróun hafréttar og reyndar líka ágreining um baráttuaðferðir hér heima og þar fram eftir götunum.

Alla þessa sögu hefði verið gaman að segja fólkinu í landinu, vera gagnrýninn í frásögninni en láta lesandann líka finna til stolts og samkenndar þegar svo ber undir. Og er ekki hægt að samræma það tvennt? Með öðrum orðum: Getur maður verið sagnfræðingur sem virðir svardaga sinnar stéttar um sannleiksleit og gagnrýna hugsun en líka þjóðhöfðingi sem á að vera bjartsýnn og stuðla að samhug fólksins í landinu? Eða verður raunin kannski sú, nú þegar ég er orðinn andlag fræðanna, að á næsta hugvísindaþingi flytji einhver erindi sem nefnist: „Þetta sem helst nú varast vann, varð þó að koma yfir hann“?

Í ólgunni í aðdraganda forsetakjörs í fyrravor velti ég þessu fyrir mér og komst svo að orði: … nái ég kjöri vil ég ekki eiga algjör hamskipti. Ég vil ekki verða forsetinn sem talar fjálglega um sigra okkar í þorskastríðunum og eininguna sem alltaf ríkti og vona að enginn gúggli mig. En ég myndi vilja fá þjóðina til að skilja að við getum sagt söguna í öllum sínum margbreytileika án þess að við verðum sakaðir um að gera lítið úr afrekum þeirra sem stóðu í stafni.

Í þessu felst tilvistarvandi sagnfræðingsins sem varð forseti. Þegar ég náði kjöri varð ég ekki aðeins að leggja á hilluna skrif um þorskastríð. Fleiri verk fóru í bið þótt vera megi að þau líti dagsins ljós síðar. Fyrir nokkrum árum vakti ég máls á þeirri hugmynd að segja sögu Íslendinga í sjónvarpsþáttaröð, samdi greinargerð, átti fundi, ýtti málinu áfram og hver veit hvað gerist. Í rökstuðningi sagði ég meðal annars um þættina:

Í þeim verða þrír meginþræðir:

1) Daglegt líf fólks, úr öllum stéttum, á öllum aldri og af báðum kynjum.

2) Formgerð samfélagsins; lög, stjórnmálaþróun og helstu atburðir.

3) Samskipti Íslendinga við umheiminn og framlag þeirra til heimsmenningar og mannkynssögu.

Stuðst verður við nýjustu rannsóknir og haft að leiðarljósi að almenningur hafi bæði gagn og gaman af þáttunum. Samhliða þáttunum verður gefin út bók um efni þeirra og til greina kemur að gefa einnig út margmiðlunarefni sem nota má til kennslu.

Góðir áheyrendur! Með þessu móti yrði sögunni miðlað til fólks, afrakstur ykkar í fræðasamfélaginu færður fólkinu í landinu. Með þessu móti myndum við svo sannarlega skipta máli, gera gagn, hafa áhrif.

Það er svo margt meira sem ég vildi fjalla um hér í dag og oftar í hópi ykkar, vina minna og félaga. Ég hefði getað fjallað um nytsemi hugvísinda og nauðsyn í mannlegu samfélagi, um ýmsar hættur sem steðja að, óþarfa þöggunartilburði í nafni rétthyggju og hneykslunargirni sem þrengir að skoðanaskiptum, sjónarmiðin hættulegu um „alternative facts“ eða sannlíki og efasemdir um gildi sérfræðiþekkingar, jafnvel andúð á henni. Ég ákvað hins vegar að leggja í dag áherslu á mikilvægi þess að rannsaka liðna tíð með opnum huga en leggja svo áherslu á að miðla þeim fræðum til fólksins í landinu, því að ef við gerum það ekki sjá einhverjir aðrir bara um það, með sínu nefi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert