Umhverfisstofnun hefur ekki tekið afstöðu til beiðni stjórnenda kísilvers United Silicon í Helguvík um sex mánaða frest til úrbóta í mengunarmálum. Fulltrúar kísilversins sendu stofnuninni bréf í vikunni þar sem þess var óskað og greint frá úrbætum á málinu. Fréttablaðið sagði fyrst frá.
Umhverfisstofnun sendi United Silicon bréf í síðasta mánuði þar sem þess var krafist að félagið gerði tafarlausar úrbætur í mengunarmálum.
Í bréfi United Silicon til Umhverfisstofnunnar sem mbl.is hefur undir höndum kemur fram að rannsóknir sóttvarnarlæknis bendi til þess að afleiðingar þeirra vandamála sem upp hafa komið hafi ekki haft neikvæð heilsufarsleg áhrif á íbúa í nágrenni verksmiðjunnar.
Í bréfinu lýstir félagið yfir ríkum samstarfsvilja og harmar að ekki hafi tekist að leysa úr öllum þeim vandamál sem Umhverfisstofnun vísar til í bréfi sínu. „Tillögur stofnunarinnar miða hins vegar að því að gripið verði til íþyngjandi úrræða og utanaðkomandi aðildar, sem ekki eru kunnugir rekstrinum, verði fengnir til að vinna að lausn,“ segir í bréfinu.
Þá segir jafnframt að félagið hafi glímt við fjölmarga byrjunarörðugleika á fyrstu stigum framleiðslunnar sem valdið hafa „ófyrirséðum ofnstöðvunum. Slíkt er síður en svo óalgengt þegar hafin er starfsemi sem er jafn umfangsmikil og í því tilfelli sem hér um ræðir. Mikilvægt er að hafa í huga, að það er einkum jaðarbúnaður ofnsins sem ekki hefur virkað eins og til var ætlast, en ekki ofninn sjálfur.“
Í skriflegu svari Sigrúnar Ágústsdóttur, sviðsstjóra hjá Umhverfisstofnun, kemur fram að Umhverfisstofnun hafi ekki tekið afstöðu til bréfsins.