Hópur akureyrskra menntskælinga lagði af stað í morgunsárið frá MA á bíl og var ferðinni heitið Eyjafjarðarhringinn. Hljómar ef til vill ekki sérlega merkilegt, en það óvenjulega er að bílnum ýtir hópurinn þessa leið og safnar um leið fé til styrktar góðu málefni - að þessu sinni til Geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri og verður söfnunarféð eyrnamerkt ungu fólki sem þangað sækir.
Góðgerðarvika er nú í MA en þá taka nemendur upp á ýmsu óhefðbundnu í því skyni að safna peningum sem renna til góðra málefna. Til dæmir er hægt að heita á nemanda sem verður með bundið fyrir augun í allan dag og einn hyggst skríða um skólann í allan dag í stað þess að ganga á tveimur jafnfljótum!
Eyjafjarðarhringurinn er 30 kílómetra langur. Það eru fimmtán drengir sem skiptast á að ýta bílnum en stýrimenn eru tvær skólasystur þeirra.
Margir hétu á krakkana vegna þessa ævintýris, og annarra verkefna vikunnar, en þeir benda á að einnig er hægt að láta frjáls framlög renna til verkefnisins. Reiknings- og bankanúmer eru þessi: 0162 - 05 - 261530 og kennitala 470997 - 2229