Flóknari setningar Steingríms í stjórn

Lilja Björk Stefánsdóttir, meistaranemi í íslenskri málfræði, flytur erindi á …
Lilja Björk Stefánsdóttir, meistaranemi í íslenskri málfræði, flytur erindi á Hugvísindaþingi í dag um breytingar í stílfærslu í máli Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns Vinstri grænna. mbl.is/Eggert

Lilja Björk Stefánsdóttir, meistaranemi í málfræði, skoðaði setningafræðibreytingar í máli Steingríms J. Sigfússonar á árunum 1990-2013 út frá breytingum á félagslegri stöðu hans á þessu tímabili. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að stílfærslan í máli Steingríms eykst með afgerandi hætti þegar hann kemst í ríkisstjórn og verður fjármálaráðherra og nær svo sögulegu lágmarki hjá honum þegar ríkisstjórn hans missir meirihluta og hann hættir sem formaður Vinstri grænna.

Við notum öll tungumálið á ólíkan hátt eftir því hvert tilefnið er og notum ýmist formlegt eða óformlegt málsnið. Stílfærsla er yfirleitt tengd formlegu málsniði í íslensku. Stílfærsla er notuð til að gera málið sitt formlegra og er breyting á málsniði. „Það kemur annar blær á málið þrátt fyrir að breytan sé lítil. Stundum er þetta meðvitað og stundum ómeðvitað,“ segir Lilja Björk.

Dæmi um stílfærslu:

  1. Maðurinn sem rannsóknina gerði er sniðugur. (stílfærsla)
  2. Maðurinn sem gerði rannsóknina er sniðugur. (ekki stílfærsla)
Steingrímur J. Sigfússon var fjármálaráðherra frá 2009 til 2011.
Steingrímur J. Sigfússon var fjármálaráðherra frá 2009 til 2011. mbl.is/Ernir

Stílfærslan eykst skyndilega

„Árin fyrir efnahagshrunið og í hruninu eykst stílfærslan skyndilega í máli Steingríms. Ég set það í samhengi við miklar breytingar á félagslegri stöðu. Hann fór frá því að vera í stjórnarandstöðu frá árinu 1991 yfir í að vera margfaldur ráðherra og fjármálaráðherra sem var opinberlega ábyrgur fyrir örlögum íslensks efnahags á miklum umrótstíma í þjóðfélaginu. Breytingar á félagslegri stöðu hans endurspeglast í málbreytingum,“ segir Lilja Björk.

Það sem er nýtt við rannsókn Lilju Bjarkar er hversu mikið efni er undir yfir samfellt tímabil frá sama einstaklingi. Rannsóknin er unnin út frá textaskrá sem inniheldur allar þingræður Steingríms á árunum 1990-2013. Hún byggir á yfirgripsmiklum setningafræðigögnum á samfelldu tímabili og því er hægt að skoða þróun sama einstaklingsins í háskerpu.

Textarnir voru keyrðir í gegnum máltækniforrit sem greinir textann niður út frá tilteknum skipunum sem því eru gefnar.

„Ég tala um háskerpu því ég get skoðað breytingarnar svo vel með þessari tækni. Það er hægt að rannsaka margt núna sem ekki var hægt fyrir nokkrum árum,“ segir Lilja Björk. Meginmarkmið rannsóknarinnar, sem er hluti af meistaraverkefni hennar, er að skoða málbreytingar og hvernig málbreytingar verða á lífsleiðinni. Í því ljósi er einstakt að fá aðgang að gögnum frá sama einstaklingi yfir ríflega 20 ára tímabil.

Alþingishúsið.
Alþingishúsið. mbl.is/Ómar

Maður talar sig inn í ákveðið hlutverk

„Mér finnst félagslega hlið tungumálsins mjög áhugaverð og skemmtileg. Það er gaman að skoða hvernig ytri aðstæður hafa áhrif á málnotkun okkar og öfugt,“ segir Lilja Björk. 

Samkvæmt kenningum um aldurstengt málmynstur og tengsl aðstæðna og málsniðs má segja í stuttu máli að þegar fólk fer inn í ákveðið hlutverk með aldrinum þarf það ekki að sanna sig eins mikið og skilgreina sig í gegnum tungumálið eins og þeir sem yngri eru. Fyrir vikið vandar það sig ekki eins mikið þegar það notar tungumálið. Hvernig Steingrímur notaði tungumálið á þessu tímabili smellpassar inn í þessar kenningar, að sögn Lilju Bjarkar.

„Það sem ég hef mestan áhuga á er að velta fyrir mér af hverju við gerum þetta. Það er áhugavert að sjá hvernig við notum tungumálið til að skilgreina okkur alveg eins og margt annað, t.d. klæðnað og skartgripi. Tungumálið er alveg jafnmikil félagsleg hegðun eins og þetta. Maður talar sig inn í ákveðið hlutverk og talar öðruvísi eftir því í hvaða stöðu og aðstæðum maður er í,“ segir Lilja Björk.  

Helgi Hrafn Gunnarsson var þingmaður Pírata frá 2013 til 2016.
Helgi Hrafn Gunnarsson var þingmaður Pírata frá 2013 til 2016. mbl.is/Golli

 

Steingrímur margfaldur ræðukóngur Alþingis

Ástæðan fyrir því að Steingrímur varð fyrir valinu hjá Lilju Björk var hvorki vegna einlægs áhuga hennar á stjórnmálamönnum né persónunni sjálfri heldur af því að hann er margfaldur ræðukóngur Alþingis.  

„Hann hefur talað langmest. Hann er líka með langa samfellda setu á Alþingi og miklar breytingar hafa orðið á félagslegri stöðu hans. Þetta eru draumaaðstæður þegar horft er á stöðu einstaklings því þú færð ekki mikið meiri breytingar en þetta,“ segir Lilja Björk og brosir. 

Lilja Björk hitti Steingrím og greindi honum frá því að hún væri að skoða ræður hans út frá breytingum á stílfærslu. „Við áttum mjög gott spjall og ég sýndi honum breytingarnar. Hann hefur mikinn áhuga á íslensku máli og fannst þetta mjög áhugavert,“ segir hún.  

Hún spurði Steingrím meðal annars hvernig hann hefði upplifað breytingarnar á þingi og mikilvægi orða sinna. Hann sagðist hafa verið meðvitaðri um breytta stöðu og meiri athygli almennings á þingstörfum á þeim tíma sem hann var í stjórn. Hann viðurkenndi að það væri líklegt að breytt staða hans hefði haft einhver áhrif á málnotkunina.

Pírati sem breytti framburði á þingi

Steingrímur er ekki fyrsti stjórnmálamaðurinn sem Lilja Björk skoðar út frá breytingum á félagslegum þáttum í tengslum við málnotkun. Í BA-ritgerðinni skrifaði hún um breytingar á framburði hjá Helga Hrafni Gunnarssyni, sem var þingmaður Pírata á Íslandi, í tengslum við breytingar á félagslegum aðstæðum hans á síðustu árum sem breyttust talsvert á stuttum tíma þegar hann komst á þing.

Í ljós kom að breytingar á félagslegum aðstæðum endurspeglast að vissu leyti í framburði hans en í ræðu á Alþingi hefur Helgi Hrafn bæði harðmæli og vestfirskan einhljóðaframburð í máli sínu, en bæði þessi framburðareinkenni eru honum ekki eðlislæg. Til samanburðar skoðaði hún meðal annars sjónvarpsþáttinn Allt í drasli, sem Helgi Hrafn hafði komið fram í nokkrum árum fyrr. „Það var heppilegt fyrir mig að hann skyldi hafa látið plata sig í þennan þátt,“ segir Lilja og bætir við hlæjandi: „Þetta er tilviljun þótt það líti út fyrir að ég hafi mikinn áhuga á að skoða sérstaklega stjórnmálamenn.“

Þess má geta að allar ræður þingmanna eru opinber gögn og því nokkuð aðgengileg, sérstaklega fyrir málfræðinga sem hafa einskæran áhuga á íslenskri tungu líkt og Lilja Björk. 

Íslenskan þarf að vera gjaldgeng í hinum stafræna heimi.
Íslenskan þarf að vera gjaldgeng í hinum stafræna heimi. mbl.is/Ómar

Mikil gróska í íslenskri málfræði

Lilja Björk segir mikla grósku í íslenskri málfræði og öllu rannsóknarstarfi um þessar mundir. Hún segir að hægt sé að heimfæra stöðu íslenskunnar yfir á svo mörg önnur tungumál. Íslenskan er minnihlutatungumál í heimi þar sem enska er að sækja á og er ekki eina tungumálið sem er í þessari stöðu. Út af smæð þjóðarinnar er auðvelt að rannsaka íslenskuna og þær breytingar sem verða.

„Loksins er almenningur og stjórnmálamenn að átta sig á því að það er ekki endalaust hægt að ýta þessari ógn sem stafar af stafrænum áhrifum á tungumálið. Það er stutt síðan fólki þótti þetta leiðinleg heimsendaspá þegar talað var um að hættuna sem steðjaði að íslenskunni. En það þarf að aðlaga málið að breyttum tíma eins og máltæknina,“ segir hún og vísar til samvinnu tungumáls og tölvutækni þar sem íslenskan þarf að vera aðgengileg.  

Íslenskan þarf að vera gjaldgeng í stafrænum heimi 

Hún bendir á að breytingar þurfi ekki að vera slæmar heldur þvert á móti. Ólíkt því sem margir halda um nám í íslensku og rannsóknum á íslensku snúast þær ekki um að fordæma hitt og þetta með fingurinn á lofti eins og enskuslettur og þágufallshneigð heldur skilja breytingar á tungumálinu. 

„Fyrst og fremst þurfum við að skilja stöðuna og hættuna sem íslenska er í í dag til þess að hægt sé að bregðast við því. Það vill enginn lenda í því að á stuttum tíma er móðurmálið horfið. Þá kemur upp skrýtin staða hjá kynslóðinni sem lendir þar á milli. Þótt margir segi að það sé bara fínt að tala bara ensku og mikið þægilegra ef maður ætlar í nám í útlöndum en þetta er ekki svona einfalt. Það þarf að standa vörð um tungumálið okkar og fyrst og fremst með því að gera það gjaldgengt í hinum stafræna heimi,“ segir Lilja Björk. 

Hún heldur erindi á málstofunni Samspil setningafræði við þrenns konar merkingu, á Hugvísindaþingi í dag kl. 10. Erindi hennar nefnist: 

Við notum öll tungumálið á ólíkan hátt eftir því hvert …
Við notum öll tungumálið á ólíkan hátt eftir því hvert tilefnið er og notum ýmist formlegt eða óformlegt málsnið. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka