Lokað hefur verið á köfun í Silfru tímabundið í kjölfar þess að bandarískur karlmaður á sjötugsaldri lést í gær eftir að hafa verið að snorkla í Silfru. Í fréttatilkynningu sem stjórnendur Þjóðgarðsins á Þingvöllum sendu frá sér á tólfta tímanum í gærkvöldi segir að ákveðið hafi verið að grípa til lokunarinnar vegna alvarlegra slysa sem orðið hafa við köfun og yfirborðsköfun í gjánni.
Bannað verður að kafa í Silfru frá kl. 9.00 í dag og til kl. 8.00 mánudag, en ákvörðun um lokunina var tekin að höfðu samráði við Samgöngustofu og lögregluyfirvöld.
Í tilkynningunni segir að innan þess tíma sem lokunin gildi verði farið yfir verklag rekstraraðila og þær reglur sem gilda um þá sem stunda köfun og yfirborðsköfun í gjánni.
Mbl.is greindi fyrst frá yfirvofandi lokun Silfru, en fréttastofa RÚV hefur eftir Ólafi Erni Haraldssyni þjóðgarðsverði að ákvörðun verði tekin um það á mánudag, eftir vinnu helgarinnar, hvort loka þurfi lengur fyrir köfun. Sagði hann þetta hafa verið óhjákvæmilega ákvörðun, ekki einungis vegna banaslyssins í dag, heldur einnig vegna tíðra alvarlegra slysa þar á síðustu misserum.
„Þetta snýr að rekstraraðilunum og verklagi þeirra og það er alveg nauðsynlegt að fara yfir þetta. Þetta er gert í samráði við Samgöngustofu, sem fer með stjórnsýslu í köfun í landinu, og lögregluna í Árnessýslu,“ hefur RÚV eftir Ólafi Erni sem kvað fyrirtækin sem stunda köfun í Silfru hafa á þessu fullan skilning.
Þá greinir Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra á Facebook-síðu sinni frá því að hún hafi, ásamt þjóðgarðsverði og öðrum stofnunum, „ákveðið að loka svæðinu og láta gera úttekt og áætlun um öryggi þeirra ferðamanna sem það sækja.“.