Lokunin ein og sér ekki lausn í málinu

Leiðsögumaður fylgist grannt með köfurum í Silfru.
Leiðsögumaður fylgist grannt með köfurum í Silfru. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við virðum þessa tímabundnu lokun sem tilkynnt hefur verið um í Silfru til klukkan 8.00 á mánudag. Lokunin ein og sér er kannski ekki lausn í málinu en það er hins vegar mjög mikilvægt að menn nýti tímann vel og fari yfir verklag og gæðakröfur,“ segir Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar.

Lokað hef­ur verið á köf­un í Silfru tíma­bundið í kjöl­far þess að banda­rísk­ur karl­maður á sjö­tugs­aldri lést í gær eft­ir að hafa verið að snorkla þar.

Björt Ólafs­dótt­ir, um­hverf­is- og auðlindaráðherra, fundaði í morg­un með Ólafi Erni Har­alds­syni þjóðgarðsverði og aðilum frá Samgöngustofu þar sem tekn­ar voru ákv­arðanir um að herða reglu­verk um köf­un í Silfru. Nú stendur yfir fundur í ráðuneytinu þar sem verið er að kynna aðilum innan ferðaþjónustunnar þessar breytingar.

„Það eru góðar fréttir að menn séu að setjast niður, bæði fyrirtæki sem eru með starfsemi við Silfru, þjóðgarðurinn, ráðuneytið og fleiri. Það er mjög gott að verið sé að fara yfir þessa hluti  hvað varðar verklag, gæðakröfur og ábyrgð. Þannig er hægt að tryggja enn frekar jákvæða upplifun ferðamanna við Silfru til framtíðar,“ segir Skapti Örn.

Hann segir Samtök ferðaþjónustunnar vonast til þess að fundurinn sem nú stendur yfir verði farsæll en áréttar að það eigi aldrei að gefa afslátt þegar öryggismál eru annars vegar. „Við getum alltaf gert betur þegar kemur að öryggismálum en öryggiskröfur geta þó ekki komið í veg fyrir slys. Rétt er þó að benda á að þau tvö tilvik sem komið hafa upp á síðustu misserum virðast ótengd slíkum gæðakröfum, þ.e. ekki var um vankunnáttu eða vanrækslu að ræða,“ segir Skapti Örn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert