Þúsundir manna bíða eftir margvíslegum aðgerðum á sjúkrahúsum hér á landi og eru margir þeirra óvinnufærir á meðan. Af því hlýst mikill kostnaður fyrir einstaklingana og þjóðfélagið í heild.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra segir í skriflegu svari við fyrirspurn á Alþingi að skipulagt átak á vegum heilbrigðisyfirvalda til að stytta biðlista eftir læknisverkum hafi skilað árangri. Hins vegar hafi aukin eftirspurn eftir þjónustu dregið úr styttingu biðlistanna, að því er fram kemur í umfjöllun um biðlistana í Morgunblaðinu í dag.
Það var í mars í fyrra að Kristján Þór Júlíusson, þáverandi heilbrigðisráðherra, samdi við fjórar heilbrigðisstofnanir um þátttöku þeirra í verkefni sem miðaði að því að stytta bið sjúklinga eftir tilteknum brýnum aðgerðum. Um er að ræða liðskipti á hnjám og mjöðmum, augasteinsaðgerðir og hjartaþræðingar. Varið skyldi 1.663 milljónum króna til verkefnisins á árunum 2016 til 2018. Það markmið var sett að í lok átaksins þyrftu sjúklingar ekki að bíða lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð.