Ládeyða án fordæma á lýðveldistímanum

Staðan á húsnæðismarkaði í dag reynist mörgu ungu fólki erfið.
Staðan á húsnæðismarkaði í dag reynist mörgu ungu fólki erfið. mbl.is/Eggert

Á síðustu átta árum hefur verið lokið við smíði 2.068 íbúða í Reykjavík. Ekki hafa verið reistar jafnfáar íbúðir í borginni í fleiri áratugi. Raunar þarf að leita aftur til stríðsáranna til að finna sambærilegt átta ára tímabil.

Aðeins 2.042 íbúðir voru byggðar í Reykjavík á árunum 1937 til 1944. Þá bjuggu þó aðeins tæplega 128 þúsund manns á Íslandi. Í dag eru íbúar landsins um 338 þúsund.

Væntanlega þarf engan að furða að spurn eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu í dag sé langt umfram framboð, þegar reistar eru í höfuðborg landsins álíka margar íbúðir og gert var á tímum Kristjáns tíunda.

Á umræddu tímabili, frá og með árinu 2009 til ársloka 2016, voru að meðaltali reistar 259 íbúðir á ári, samkvæmt upplýsingum sem mbl.is hefur fengið frá Reykjavíkurborg.

Aðrar lægðir blikna í samanburði

Þor­steinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, sagði í samtali við mbl.is á mánudag að það gæfi augaleið að á höfuðborg­ar­svæðinu þurfi að byggja 1.500 til 2.000 íbúðir á ári, eða næstum jafnmikið og byggt hefur verið í Reykjavík á átta árum.

Rétt er að hafa í huga að höfuðborgarsvæðið samanstendur af fleiri sveitarfélögum en Reykjavík. Borgin er þó langfjölmennasta sveitarfélag landsins og fyrir liggur að þessi ládeyða í byggingu íbúðarhúsnæðis á sér engin fordæmi frá stofnun lýðveldisins.

Til samanburðar má taka aðrar þær lægðir sem sjá má á grafinu. Ein slík átti sér greinilega stað frá og með árinu 1995 og fram til ársloka 2002. Hún bliknar hins vegar í samanburði þar sem á þessu tímabili voru reistar 4.057 íbúðir, eða að meðaltali 507 á ári, næstum helmingi fleiri en síðustu átta ár.

Aðra og eldri lægð má sjá á árunum 1947 til 1954. Þá voru þó byggðar 3.182 íbúðir eða að meðaltali 398 á ári.

Borgarstjóri sagði ríkið hafa brugðist ungu fólki.
Borgarstjóri sagði ríkið hafa brugðist ungu fólki. mbl.is/Ómar

Ríki og borg benda hvort á annað

Deildar meiningar eru um hvað veldur þessu. Segja mætti að ríkið og borgaryfirvöld hafi bent hvort á annað í vikunni. Þannig sagði ráðherra í sama viðtali að ábyrgð sveitarfélaga væri mikil. Sveitarfélögin gætu ekki „kastað bolt­an­um yfir til ná­granna sinna“ og sagt þeim að anna eftirspurninni.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, skellti skuldinni hins vegar á ríkið er hann var spurður um þann vanda sem ungt fólk glímir við á húsnæðismarkaði í dag.

Friðrik Á. Ólafsson, viðskipta­stjóri bygg­ing­ariðnaðar hjá Sam­tök­um iðnaðar­ins, hefur sagt að báðum aðilum sé fjöldi úrræða tækur til að sporna við vandamálinu. Við blasi að kaupgeta almennings sé hreinlega ekki til staðar.

Yfirlýst markmið borgaryfirvalda er að þétta byggðina.
Yfirlýst markmið borgaryfirvalda er að þétta byggðina. mbl.is/Ómar

Ekki að ráðast gegn borgaryfirvöldum

Í samtali við mbl.is í dag segir Friðrik að þéttingarstefna yfirvalda eigi töluverða sök í málinu.

„Við höfum ávallt sagt að þéttingarstefna sé af hinu góða. En það verður að vera einhver annar valkostur líka,“ segir Friðrik og bendir á að þéttingarstefnu megi finna í mörgum sveitarfélögum á Íslandi. Þó sé ummælum hans oft tekið á þann veg að hann sé að ráðast gegn borgaryfirvöldum í Reykjavík.

„Það er langur vegur frá.“

Dýrara að þétta byggðina

„En eftir stendur sú staðreynd að það er dýrara að þétta byggðina heldur en að byggja í útjöðrum. Það tekur meiri tíma, flækjustigið er meira, lóðirnar eru oft á tíðum ekki í eigu sveitarfélaganna heldur annarra aðila, sem jafnvel eiga þar mannvirki sem keypt eru og þau rifin.

Það má öllum vera ljóst að þetta eru dýrari lóðir. Að maður tali ekki um, að yfirleitt er gerð krafa um bílakjallara þegar verið er að byggja miðsvæðis í byggð. Það eru sex milljónir í viðbót,“ segir Friðrik.

„Og hvernig á sá, sem hyggst kaupa sína fyrstu íbúð, að geta staðið andspænis öllum þeim kostnaði sem þessu fylgir?“

Meðalstærð nýrra íbúða hefur aukist síðustu áratugi.
Meðalstærð nýrra íbúða hefur aukist síðustu áratugi. mbl.is/Ómar

Vilja gjarnan byggja stærra

Meðalstærð nýrra tveggja herbergja íbúða hefur aukist frá 62,9 fermetrum á árunum 1950-1970, í 78 fermetra á undanförnum sex árum. „Þessi þróun veld­ur þeim sem eru að reyna að eign­ast sitt fyrsta hús­næði á tím­um mik­illa verðhækk­anna enn meiri vand­ræðum en ella,“ sagði í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði á mánudag.

Spurður hvað valdi þessari þróun, sem er nokkuð á skjön við þarfir flestra þeirra sem nú vilja freista þess að kaupa sína fyrstu fasteign, segir Friðrik að háu lóðaverði megi um kenna.

„Yfirleitt hafa sveitarfélög aðeins verið með eitt verð á lóðum, alveg sama hversu stórar íbúðirnar eru sem á þeim rísa. Á sama tíma hugsa framkvæmdaraðilar um hvernig þeir geti fengið sem mesta ávöxtun af þeirra fjárfestingu.

Þá vilja þeir gjarnan byggja stærra og horfa þá til þeirra sem eru enn í sínum einbýlishúsum og vilja jafnvel minnka við sig. En þá gleymist það að oft og tíðum dugar andvirði einbýlishússins ekki fyrir slíkri íbúð. Það er vitað að verðþróun sérbýlanna hefur ekki fylgt verðþróun fjölbýlishúsa.“

Nýbyggingar í Urriðaholti.
Nýbyggingar í Urriðaholti. Árni Sæberg

Húsasmiðir ekki snúið aftur í geirann

Friðrik segir þá aðspurður að við smíði húsnæðis hér á landi skorti nú innlent vinnuafl, sem hægt geti verulega á uppbyggingu.

„Menn reyna auðvitað að brúa það bil með því að flytja inn erlent vinnuafl, en við höfum á sama tíma bent á að mjög mikilvægt sé að passa upp á að í innflutta vinnuaflinu séu líka fagmenntaðir menn.“

Vísar hann til þess að margir íslenskir húsasmiðir hafi farið út fyrir landsteinana í kjölfar hruns bankanna árið 2008. Ekki hafi þeir allir snúið aftur.

„Það gleymist oft að ræða það líka, að það eru ótrúlega margir góðir iðnaðar- og byggingarmenn hér á landi sem fóru í önnur störf eftir hrunið. Ég er hræddur um að þeir hafi í miklum mæli ekki skilað sér aftur í geirann.

Þetta reynir enn frekar á mörg byggingarfyrirtæki að halda skipulaginu góðu og vinnubrögðunum réttum. Því eins og við vitum vel af reynslunni, þegar verðið er orðið þannig að framkvæmdirnar standa vel undir sér, þá vill kæruleysi oft fylgja.“

Bygging hafin við 1.848 íbúðir á tveimur árum

Ætla mætti að nú sé farið að hilla undir lok þessarar ládeyðu, að minnsta kosti miðað við þær upplýsingar sem sjá má hér að ofan.

Á höfuðborg­ar­svæðinu eru þannig í dag 3.560 íbúðir skráðar í bygg­ingu sam­kvæmt töl­um frá sveit­ar­fé­lög­um svæðis­ins. Í Reykja­vík er rétt rúm­lega helm­ing­ur þess­ara íbúða eða í kring­um 1.800.

Bygging var hafin við 1.848 nýjar íbúðir í borginni síðustu tvö ár, en fjöldinn hefur ekki verið svo mikill síðan í kringum árin 1972 og 1986, þegar Breiðholt og Grafarvogur voru sem mest í uppbyggingu.

Met slegin sem varla uppfylla þörfina

„Við vit­um að síðustu tvö ár hafa bæði slegið met, það voru um níu hundruð íbúðir sem fóru í smíði á hvoru ári um sig, en að meðaltali hafa þær á und­an­förn­um árum verið und­ir sjö hundruð,“ sagði Dagur í samtali við mbl.is á þriðjudag.

„Við spá­um því að árið 2017 verði enn þá stærra að þessu leyti, það verði að minnsta kosti 1.300 íbúðir sem fari í smíði.“

Miðað við ofangreindar töl­ur sveit­ar­fé­lag­anna um íbúðir í bygg­ingu munu framkvæmdirnar þó hrökkva skammt, að sögn Friðriks.

„Við erum varla byrjuð, við erum með þessu varla að upp­fylla þörf­ina, hvað þá að saxa á það sem vant­ar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert