Ferðamenn hætt komnir á Djúpalónssandi

Ferðamennirnir lágu eftir í hálfgerðum polli.
Ferðamennirnir lágu eftir í hálfgerðum polli. Ljósmynd/Ethan McAuliffe

Hópur erlendra ferðamanna stefndi sér í voða þegar fólk í hópnum hljóp á eftir stórri öldu á Djúpalónssandi síðdegis í dag. Myndir náðust af því þegar alda greip ferðamennina og bar þá langt inn á sandinn.

Mikið brim var og nokkur fjöldi ferðamanna í fjörunni, að sögn Þórs Gíslasonar, leiðsögumanns hjá IG Tours. Var hann á leið úr fjörunni með sinn hóp þegar atvikið átti sér stað.

„Við vorum að ganga í burtu og þá sjáum við stóra öldu koma inn og fólk hlaupa undan henni. En svo eru þrír af þeim, sem hlaupa á eftir henni út aftur, að fíflast og þá kemur þessi miklu stærri alda inn,“ segir Þór. 

„Fólk þekkir þetta náttúrulega ekkert. Það koma þrjár eða fjórar stórar þarna í röð og þau hlaupa undan þeirri fyrstu. Sú sem kemur á eftir nær svo að komast lengra áður en hún brotnar, því það var svo mikill sjór fyrir.“

Stærð öldunnar sést vel á þessari mynd.
Stærð öldunnar sést vel á þessari mynd. Ljósmynd/Þór Gíslason

Sandhryggur varð þeim til björgunar

Fólkið var á tímabili alveg á kafi að sögn Þórs, en aldan bar þau yfir sandhrygg ofarlega í fjörunni.

„Það varð þeim sennilega til björgunar að þau berast þarna yfir sandhrygginn og enda þannig í hálfgerðum polli.“

Spurður hvort fjaran sé ekki síður hættuleg en Reynisfjara, þar sem ferðamenn hafa látið lífið, segir Þór svo vera. 

„Já, þegar öldurnar eru með þessu móti sem var í dag. Hér er hins vegar ekkert viðvörunarskilti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert