Guðmundar- og Geirfinnsmálin á Netflix

Heimildarmyndin samanstendur meðal annars af leiknum atriðum en tökur á …
Heimildarmyndin samanstendur meðal annars af leiknum atriðum en tökur á þeim stóðu yfir í átta daga. Mynd/Sagafilm-MosaicFilms

„Við auðvitað fylgdumst spennt með niðurstöðu endurupptökunefndar,“ segir Margrét Jónasdóttir, framleiðandi hjá Sagafilm, en vinna við heimildarmyndina Out of Thin Air um Guðmundar- og Geirfinnsmálin er nú á lokametrunum. Myndin er framleidd af Sagafilm og Mosaic Films en BBC, RÚV og Netflix koma einnig að gerð hennar auk Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Wellcome Trust í Bretlandi.

Morgunblaðið sagði frá því síðasta sumar að um væri að ræða fyrstu heimildarmyndina á Íslandi sem Netflix fjárfestir í á framleiðslustigi en efnisveitan bandaríska keypti heimsrétt að myndinni, að undanskildum Íslandi og Bretlandi.

Frá tökum á leiknum atriðum.
Frá tökum á leiknum atriðum. Mynd/Sagafilm-MosaicFilms

Endurupptökunefnd féllst nýverið á endurupptökubeiðni fimm einstaklinga af þeim sex sem sakfelldir voru í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmálin á 8. áratugnum. Að sögn Margrétar mun niðurstaðan marka lokahnykkinn í heimildarmyndinni en myndin segir meðal annars frá baráttu Sævars Ciesielskis fyrir endurupptöku.

Myndin hefur verið í vinnslu í um það bil tvö ár en hún samanstendur af viðtölum, leiknum atriðum og gömlu myndefni og segir sögu málanna allt frá hvarfi Guðmundar og Geirfinns og þar til niðurstaða nefndarinnar lá fyrir.

„Þetta er búið að taka um það bil ár frá því að við tókum fyrstu viðtölin. Svo tókum við átta daga þar sem við endurgerðum svona spretti úr sögunni. Það eru leiknar senur, aðallega fyrir myndræna og dramatíska uppbyggingu. Leikararnir eru ekki með línur og þeir eru í raun hálfóþekkjanlegir. Það verður brot af myndinni og svo erum við auðvitað líka að keyra á gömlu myndefni héðan og þaðan. Myndin fer yfir sögu þessara tveggja mála og líka yfir baráttuna fyrir endurupptöku.“

Frá tökum.
Frá tökum. Mynd/Sagafilm-MosaicFilms

Margrét segir myndina að miklu leyti vinna með hugtakið minnisvafaheilkenni (e. memory distrust syndrome) sem réttarsálfræðingarnir Gísli Guðjónsson og James MacKeith kynntu árið 1982 en hugtakið byggði á raunverulegum málum þar sem falskar játningar og sálfræðileg áhrif yfirheyrslu komu við sögu.

Unnið fyrir alþjóðamarkað

„Fyrir Íslendinga er þetta mjög fínt yfirlit yfir málin en við erum auðvitað líka að reyna að vinna þetta fyrir erlendan markað og á 90 mínútum nær maður ekki að sökkva sér djúpt ofan í smáatriði. Hugsunin var að vinna svolítið með þetta hugtak sem doktor Gísli Guðjónsson kallar minnisvafaheilkenni, þessar fölsku minningar og svona hvernig menn hafa nálgast þetta mál á undanförnum árum.“

Leikstjóri Out of Thin Air er Dylan Howitt.
Leikstjóri Out of Thin Air er Dylan Howitt. Mynd/Sagafilm-MosaicFilms

„Þetta er búin að vera gríðarleg klippivinna að ná þessu niður í þessar 90 mínútur,“ segir Margrét enda er þar farið um víðan völl.

„Af því að við erum að gera þetta fyrir alþjóðamarkað, fyrir fólk sem hefur engar forsendur til að vita nokkurn skapaðan hlut [um málið], þá verður þetta svolítið flóknara. Þetta þarf að fara í annan búning en ef að maður væri að vinna þetta bara fyrir Ísland því að hér þekkja náttúrulega svo margir málin.“

Að sögn Margrétar verður myndin frumsýnd á BBC og RÚV í júní en hún verður aðgengileg á Netflix frá og með 1. júlí. Leikstjóri heimildarmyndarinnar er Dylan Howitt og framleiðandi Mosaic er Andy Glynne. 

Mynd/Sagafilm-MosaicFilms
Mynd/Sagafilm-MosaicFilms
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka