Krónan lögð til grundvallar

Ásgeir Jónsson hagfræðingur.
Ásgeir Jónsson hagfræðingur. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Fyrir það fyrsta er þetta samráðsnefnd þar sem vinnan fer fram í opnu ferli. Þó við séum þrjú skipuð í nefndina munu miklu fleiri aðilar koma að þessu verki. Vinnan fer vitskuld fram í samvinnu við Seðlabankann, einnig rætt um aðkomu erlendra sérfræðinga og síðan verður einnig leitað samráðs við helstu hagsmunaaðila og aðra sem hafa rökstuddar skoðanir á málinu.“

Þetta segir dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur í samtali við mbl.is en tilkynnt var um síðustu helgi að þriggja manna verkefnisstjórn hefði verið skipuð til þess að endurskoða peningastefnu Íslands. Auk Ásgeirs eiga sæti í verkefnisstjórninni þau Illugi Gunnarsson, hagfræðingur og fyrrverandi þingmaður og ráðherra, og Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur.

Frétt mbl.is: Ásgeir, Ásdís og Illugi í verkefnisstjórn

„Forsenda vinnunar, eins og fram kemur í skjali forsætisráðuneytisins, er að krónan sé framtíðargjaldmiðill landsins. Útgáfa gjaldmiðils er hluti af fullveldi þjóðarinnar og kemur því öllum landsmönnum við og það verður að ríkja sæmileg sátt um peningastefnuna. Það er því mjög mikilvægt að vinnan fari fram fyrir opnum tjöldum og þessi mál séu ekki aðeins rædd á nefndarfundum heldur einnig í þjóðmálaumræðunni sem slíkri. Þetta munum við reyna að gera svo sem með ráðstefnuhaldi og málfundum en einnig kalla eftir áliti erlendra sérfræðinga.“

Ferlið skiptir ekki síður máli en niðurstaðan

Gert er ráð fyrir að verkefnisstjórnin skili af sér á þessu ári og segir Ásgeir að fyrir vikið megi búast við að framundan sé um níu mánaða meðganga. „Ferlið skiptir ekki síður miklu máli en það sem við munum skila af okkur,“ segir hann. Sjálfur lagði hann stund á peningamálahagfræði og alþjóðafjármál í sínu framhaldsnámi og ritaði meðal annars doktorsritgerð sína um peningastefnu í litlu opnu hagkerfi.

Hann segir að þjóðhagfræði hafi í sjálfu sér ekki tekið miklum breytingum á síðustu 20-30 árum. Hins vegar sé ekki ólíklegt að framundan séu talsvert miklar breytingar, þá ekki síst í ljósi fjármálakreppunnar og þeirra óhefðbundnu aðgerða sem gripið var til í kjölfarið, svo sem í peningamálum. Mjög mikið af nýjum hugmyndum séu því komnar á kreik ytra sem sé alveg vert að kynna sér.

Ásgeir segir að mikil hugmyndavinna hafi verið unnin á sínum tíma þegar krónan var sett á flot samhliða því að verðbólgumarkmið var tekið upp árið 2001. „Það skilaði þeim árangri að nokkuð góð þjóðfélagsleg sátt var um málið á sínum tíma. Á þeim 15 árum sem liðið hafa hefur margvíslegt gerst og við erum öll mikilli reynslu ríkari. Það er alveg eðlilegt er að farið sé aftur yfir málin á þessum tímapunkti þegar höftin hafa verið afnumin,“ segir Ásgeir.

Ákveðinn vandi fólginn í að festa gengið

Spurður hvort svokallað myntráð verði tekið til skoðunar ásamt öðru segir hann það verða gert en Viðreisn lagði mikla áherslu á þá leið fyrir kosningarnar en í þeirri leið felst í raun fastgengisstefna.

„Það felst þó ákveðinn vandi í því að festa gengið. Við getum ekki lýst yfir einhliða gengisfestingu við annan gjaldmiðil. Sú gengisfesting yrði fyrr eða síðar sprengd af spákaupmönnum eða í múgæsingu á markaði. Þannig að það er meira en að segja það að ætla að festa gengið án hafta – til þess þarf járnbenta festingu líkt og myntráð þar sem peningamagn í umferð er tengt við gjaldeyrisforðann,“ segir hann. „Sú stefna er hins vegar viðurhlutamikil og krefst aga af stjórnvöldum.“ Á móti komi einnig að í ljósi þess hve mikil fylgni sé á milli verðbólgu og gengis á Íslandi feli verðbólgumarkmið ávallt í sér ákveðið gengismarkmið, að minnsta kosti að hluta.

Ásgeir bendir á í því sambandi að Íslenska krónan hafi orðið að sjálfstæðri mynt við fullveldi árið 1918 eða fyrir hartnær 100 árum. Allan þann tíma hafi krónan aðeins flotið frjáls í 7 ár eða frá 2001-2008 en annars hafi stjórnvöld alltaf reynt stýra gengi hennar með einum eða öðrum hætti til þess að tryggja stöðugleika. Það hafi Seðlabanki Íslands raunar gert allt frá árinu 2009 með því að beita gjaldeyrisinngripum og ýmsum öðrum leiðum. Það sé því eðlilegt að hugmyndum sé velt upp um hvort hægt sé að fara einhverja millileið. Hins vegar verði allar leiðir skoðaðar í þessum efnum og kallað eftir sem flestum sjónarmiðum.

„Við viljum gjarnan heyra sjónarmið allra í þessum málum,“ segir hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert