„Ef maður er að spá í hvað er til ráða þá verður maður fyrst að hugsa hvert vandamálið er. Það er einfaldlega það að ekki eru nógu margar íbúðir fyrir þá sem búa á Íslandi,“ segir Konráð S. Guðjónsson hjá greiningardeild Arion banka í samtali við mbl.is.
Ungliðahreyfingar Framsóknar, Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna í samstarfi við Politica, félag stjórnmálafræðinema við HÍ, standa í kvöld fyrir málfundi um húsnæðismál ungs fólks, stöðuna og hvað er til ráða. Þar munu Konráð, Dagur B. Eggertsson, Nichole Leigh Mosty og Guðmunda Guðmundsdóttir fara yfir málin.
„Okkur fjölgar hratt og svo færðu ferðamenn ofan á það en á sama tíma hefur íbúðafjárfesting verið lengi að taka við sér eftir að hafa nánast þurrkast út á einni nóttu,“ segir Konráð og bendir á að lagerinn sé að tæmast. „Við höfum ekki séð jafnfáar íbúðir til sölu frá því alla vega árið 2006 en við höfum ekki gögn lengra aftur. Það er kjarninn í því hvert vandamálið er.“
Kjartan segir að þegar framboð er ekki að taka við sér og ætlunin sé að hjálpa einum hópi umfram aðra þýði það að sá hópur hagnist umfram aðra vegna þess að framboðið tekur svo hægt við sér. „Það þýðir samt ekki að það megi ekki gera meira fyrir ungt fólk,“ segir Kjartan og bendir á að ýmislegt sé í boði fyrir ungt fólk.
„Þú ert með fyrstu fasteign leiðina. Hún gerir það að einhverju leyti en ekki strax og það er einmitt málið; það er svo erfitt að sjá að það sé eitthvað sem lagar þetta strax. Engin augljós gallalaus lausn, nema bara fjölga íbúðum. Það er engin töfralausn.“
Hann segir þó að það sé gríðarlega jákvætt að íbúðafjárfesting hafi aukist miklu meira í fyrra en búist hafi verið við og þar sé vonandi kominn vísir að lausn. Haldi sú þróun áfram, innan hóflegra marka, þá telur Kjartan að vandinn muni leysast af sjálfu sér.