Ölduspá og viðvörunarkerfi er meðal þess sem felst í sérstöku verkefni sem miðar að því að auka öryggi ferðamanna í Reynisfjöru og Kirkjufjöru en verkefnið var kynnt á blaðamannafundi í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í morgun.
Kom fram í máli Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra að þetta svæði hafi verið mikið í umræðunni og „birtingamynd verkefna sem við þurfum að kljást við sem fylgir því að margir vilja hingað koma“.
Greindi hún frá því að vinnuhópur Stjórnstöðvar ferðamála um brýnar aðgerðir í öryggismálum ferðamanna hafi lagt til að þróuð yrði ölduspá og viðvörunarkerfi þannig að hægt yrði að spá fyrir um hættulegar aðstæður. Spáin verður hluti af kerfi Vegagerðarinnar undir veðri og sjólagi en verkefnið felst í þróun hugbúnaðar, dýptarmælingum, uppsetningu á búnaði og fleiru.
Flaggað verður í fjörunni við hættulegar aðstæður og gæsla mögulega aukin en kostnaðaráætlun verkefnisins hljóðar upp á um 20 milljónir króna. Þórdís Kolbrún bætti þó við að rekstrarkostnaðurinn verði óverulegur og aðeins yrði verulegur kostnaður í uppsetningu búnaðarins.
Sagði Þórdís Kolbrún að stefnt yrði að því að leysa þetta verkefni fyrir sumarið en Ferðamálastofa mun ganga til samninga við Vegagerðina um það. Verkefnið er fjármagnað af fé sem sett var til hliðar úr framkvæmdasjóði ferðamála árið 2016 í þágu öryggismála.
Stefnt er að dýptarmælingar fari fram í sumar og uppsetning á viðvörunarbúnaði í kjölfarið. „Við bindum miklar vonir við þetta öryggismál og það er mikilvægt að við gerum það sem við getum til að koma í veg fyrir slys,“ sagði Þórdís Kolbrún.