Sest ekki í miðstjórn ASÍ með Gylfa

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Samsett mynd

„Félagið þarf að mínu mati að leggja áherslu á ytri stefnu félagsins. Þá er ég að tala um víkka út kjarabaráttuna og láta okkur miklu fleiri mál varða. Eins og til dæmis húsnæðismálin og vaxta- og verðtryggingarmálin sem ég lít á sem eitt af okkar mikilvægustu kjaramálum. Sama er að segja um það að ef við ætlum að fara út í norrænt samningamódel þá verðum við að byggja fyrst upp norrænt velferðarkerfi að mínu mati.“

Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, nýr formaður VR, í samtali við mbl.is. Hann segir innra starf félagsins mjög öflugt og staðið sé vel að þeim málum eins og hefðbundnum kjaramálum, orlofsmálum og rekstri skrifstofu þess. Hins vegar hafi komið skýr skilaboð frá félagsmönnum með kjöri hans sem formanns að félagið legði meiri áherslu á ytri málin.

„Ég bauð fram krafta mína í kosningunum og sagðist vilja beita mér fyrir því að verðtryggingin yrði afnumin og var kallaður gasprari fyrir vikið. En verkalýðshreyfingin á ekki að gera þetta. Hver á þá að taka upp hanskann fyrir fólkið? Verkalýðshreyfingin kemur til dæmis miklu meira að lagafrumvörpum en fólk almennt áttar sig á,“ segir hann.

Þannig eigi aðilar vinnumarkaðarins aðkomu að miklum fjölda nefnda á hins opinbera þar sem farið sé yfir lög og reglur. „Þetta eru að mínu mati svo annarlega kjaramál og einhver mikilvægustu kjaramálin,“ segir Ragnar. Svo virðist alltaf sem allt slíkt þurfi hins vegar að samrýmast meginstefnu og áherslum forystumanna ASÍ.

Hús verslunarinnar, höfuðstöðvar VR.
Hús verslunarinnar, höfuðstöðvar VR. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kröfur um verðtrygginguna útþynntar af ASÍ

Ragnar hefur sagt að hann ætli ekki að taka sæti í miðstjórn ASÍ. Spurður út í það segir hann: „Ég mun ekki taka sæti í miðstjórn ASÍ með núverandi forseta við völd.“ Vísar hann þar til Gylfa Arnbjörnssonar enda hann ítrekað lýst vantrausti á forystu sambandsins. Hins vegar muni hann væntanlega taka sæti í samninganefnd fyrir hönd VR. 

„Mér hefur þótt forseti ASÍ, og fráfarandi formaður VR, ekki vera í neinu sambandi við vilja fólksins í landinu og sá grunur reyndist vera réttur. Ég bauð mig fram á móti honum, og hef gert það þrisvar sinnum, til þess að sýna almenningi í landinu hversu mikinn stuðnings hann nýtur á meðal þessa þrönga hóps sem er valinn inn á þing sambandsins.“

Bendir Ragnar á að ítrekað hafi verið reynt að fá ályktanir samþykktar á þingum ASÍ um verðtrygginguna. Fjallað hafi verið um málið á vettvangi VR og kröfur í þeim efnum settar ofarlega á blað fyrir kjarasamninga. Þær hafi síðan verið þynntar út hjá ASÍ vegna þess að það henti ekki stefnu þeirra sem ráðið hafi ferðinni innan sambandsins.

„Stefna þeirra í þessum málum hefur verið að leysa lána- og vaxtamálin með því að ganga inn í Evrópusambandið og taka upp evru. En launafólk og almenningur í landinu á ekki að þurfa að hafa byssustinginn í bakinu. Við eigum að geta tekið slíka ákvörðun með upplýstum hætti. Það á ekki að nota ástandið gegn launafólki því við getum gert miklu betur.“

Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Sjóðirnir leggi fé í uppbyggingu leigufélaga

Ragnar vísar þar til margítrekaðrar stefnu ASÍ og til að mynda Samfylkingarinnar að ekki sé hægt að afnema verðtryggingu af lánum nema með inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru. Ragnar tekur fram að hann hafi ekki tekið afstöðu til Evrópusambandsins sjálfur en hann telji rangt að stilla launafólki upp við vegg með þessum hætti. 

„Þarna er um að ræða margítrekaða stefnu bæði Samfylkingarinnar og ASÍ og þar á milli eru mikil tengsl. Þannig að maður hlýtur að draga þá ályktun að verið sé að nota sér þetta ástand til þess að afla sér meira fylgis við þessa risastóru pólitísku ákvörðun sem felst í því að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Það er bara allt önnur umræða.“

Ragnar vill að lífeyrissjóðirnir komi að lausn húsnæðismála almennings með beinum hætti. Þá til að mynda með því að leggja fjármagn í uppbyggingu leigufélaga og byggingu íbúða sem seldar væru á kostnaðarverði eða með hóflegri álagningu. Hann vill ennfremur að lögum verði breytt þannig að slík samfélagsverkefni væru ekki háð arðsemiskröfu.

„Ég er ekki að leggja það til að lífeyrissjóðirnir hendi peningum í einhver gæluverkefni þar sem þeir muni tapast að öllu leyti. Ég er eingöngu að tala um að sjóðirnir komi með þolinmótt fjármagn tímabundið inn í slík verkefni sem væru ekki hagnaðardrifin og breyta þeim síðan yfir í samvinnufélög með tíð og tíma og sjóðirnir fengju þá sitt fjármagn til baka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert