Vill sjá öryggismál í betri og skilvirkari farvegi

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gyfladóttir, ráðherra ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunar.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gyfladóttir, ráðherra ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunar, bindur miklar vonir við nýtt verkefni sem snýr að öryggi ferðamanna við Reynisfjöru og Kirkjufjöru. Verkefnið var kynnt í morgun en það fellst m.a. í ölduspá og viðvörunarkerfi á svæðinu.

Aðspurð hvort til standi að koma álíka kerfum á við aðrar strendur landsins sem ferðamenn sækja í segir Þórdís að þetta verkefni snúi aðeins að fyrrnefndu svæði, Reynisfjöru og Kirkjufjöru. „Þetta er einskiptisaðgerð sem gengur út á þessar mælingar og úttekt á svæðinu. Rekstrarkostnaðurinn verður óverulegur og við bindum miklar vonir um þetta. En það hafa engar ákvarðanir verið teknar um önnur svæði,“ segir hún í samtali við mbl.is.

"Við viljum auðvitað sjá öryggismál í betri og skilvirkari farvegi og ég held að ferðaþjónustan sé alveg með okkur í því," segir Þórdís Kolbrún. mbl.is/Ómar Óskarsson

Aðspurð almennt um öryggismál á ferðamannastöðum og hvort hún sjái fyrir sér að ríkið grípi inn í á fleiri stöðum eins og ríkið gerði við Silfru um helgina, það er setji strangari öryggisreglur, segir hún að nú standi yfir endurskoðun laga um skipan ferðamála.

„Þar ætlum við að taka sérstaklega á þessum öryggismálum. Við viljum auðvitað sjá öryggismál í betri og skilvirkari farvegi og ég held að ferðaþjónustan sé alveg með okkur í því. Þannig þarf að horfa á mismunandi afþreyingu á mismunandi hátt. Sum afþreying í ferðaþjónustunni er áhættusamari en önnur og þá þarf einfaldlega að gera aðrar kröfur,“ segir Þórdís og bætir við að þessar hugmyndir muni birtast í frumvarpsdrögum sem verða birt á næstu dögum.  

Mikil fjárfestingaþörf í samgöngukerfinu

Nú hefur mikil umræða skapast um 10 milljarða niðurskurð í samgönguáætlun ársins og meðal annars þarf að sleppa malbikun Dettifossvegar og í Berufirði. Þórdís Kolbrún segir það staðreynd að það vanti fjármuni í ýmsa málaflokka og samgöngumál þar á meðal.

„Það liggur auðvitað fyrir að fjárfestingaþörf í samgöngukerfinu er mikil. Alþingi samþykkti samgönguáætlun sem að inniheldur meiri fjármagn heldur en var síðan samþykkt stuttu seinna í fjármálaáætlun og það er bara staðan. Ég tala fyrir uppbyggingu í samgöngukerfinu því það er ein forsenda ferðaþjónustunnar en líka í því að markaðssetja landið allt. Það eru náttúruperlur um allt land sem að mínu mati eiga mikið inni,“ segir Þórdís.

„Suðvesturhornið hefur einnig gott af því að ferðamenn fari sem víðast til þess að passa upp á álag til dæmis. En þetta er bara verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Það vantar fjármuni í ýmsa málaflokka og samgöngumál eru þar á meðal.“

Ferðamenn í Almannagjá fyrr í mánuðinum.
Ferðamenn í Almannagjá fyrr í mánuðinum. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert