Annað hrun ekki á leiðinni

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. mbl.is/Golli

Már Guðmundsson, bankastjóri Seðlabankans, segir að uppvöxtur sé í efnahag Íslands og að hann gæti ofhitnað. Þrátt fyrir það sé ekki annað hrun á leiðinni á borð við það sem varð 2008.

Þetta kemur fram í viðtali sem AFP-fréttastofan tók við Má.

„Það gæti orðið ofhitnun. Þess vegna erum við með stífa peningastefnu og við eigum að hafa styrka fjármálastefnu stjórnvalda og önnur verkfæri til að glíma við slíkt,“ sagði hann.

„Ef það verður ofhitnun þá leiðir hún ekki til efnahagskreppu eða einhvers í líkingu við hana.“

Þrír stærstu bankar Íslands féllu í október 2008, sem leiddi til fjármálakreppu og aðstoðar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Már tekur fram að slíkt muni ekki endurtaka sig. „Bankarnir eru í miklu, miklu betra ásigkomulagi. Þeir taka ekki þátt í alþjóðlegri starfsemi,“  sagði hann og bætti við að bankarnir þurfi að fylgja mjög stífum reglum.

Hann bætti við að fjölgun ferðamanna væri á bak við stóran hluta af efnahagsvexti Íslands og að hún væri einnig aðalástæðan fyrir styrkingu krónunnar. Það setti þrýsting á útflutningsiðnaðinn en ekkert væri hægt að gera í því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert