„Ég vil ekki boð og bönn“

Formaður Landssambands hjólreiðamanna segir að hjólreiðamenn myndu velja hjólastíga frekar …
Formaður Landssambands hjólreiðamanna segir að hjólreiðamenn myndu velja hjólastíga frekar en akreinar á stofnbrautum ef slíkt væri í boði. mbl.is/Golli

Formaður Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM) ætlar að óska eftir fundi með rannsóknarnefnd samgönguslysa til að fá frekari útskýringar á orsakagreiningu hennar á banaslysi sem varð í Ártúnsbrekku árið 2015. 

Ásbjörn Ólafsson, formaður LHM, furðar sig á niðurstöðu nefndirnar sem leggur til að innanríkisráðuneytið taki til skoðunar að banna hjólreiðar á fjölakreina vegum í þéttbýli þar sem umferðarþungi og hraði er mikill. 

Slysið varð snemma að morgni mánudagsins 21. desember 2015. Það bar að, samkvæmt niðurstöðu nefndarinnar, með þeim hætti að hjólreiðamaðurinn hjólaði inn á veginn og á sama tíma var leigubíl ekið upp Ártúnsbrekku. Ökumaður bif­reiðar­inn­ar varð hjólareiðamanns­ins ekki var fyrr en rétt áður en hann ók aft­an á hann með þeim af­leiðing­um að hjól­reiðamaður­inn kastaðist upp á framrúðu bílsins og þaðan í göt­una og hlaut ban­væna áverka.

Þrír hlutir byrgðu ökumanni sýn

Í skýrslu nefndarinnar er tekið fram að þrír hlutir í mælaborði hafi byrgt leigubílstjóranum sýn. Ætlað er að hann hafi ekið á um 90 kílómetra hraða á klukkustund. Hann hafði verið á vakt í rúmlega níu tíma. 

Á vissum stöðum í höfuðborginni, m.a. við Suðurlandsbraut, eru kjöraðstæður …
Á vissum stöðum í höfuðborginni, m.a. við Suðurlandsbraut, eru kjöraðstæður til hjólreiða. Á öðrum stöðum er ástandið ekki gott. mbl.is/Kristinn

Í til­lög­um rann­sókn­ar­nefnd­ar­inn­ar seg­ir m.a. að mik­il hætta sé á að af­leiðing­ar árekst­urs milli hjól­reiðamanns og bif­reiðar verði mjög al­var­leg­ar þegar öku­hraði er mik­ill. Eins skapi mik­ill mun­ur á hraða far­ar­tækja aukna hættu á slys­um.

„Þessi niðurstaða nefndarinnar er ótrúleg,“ segir Ásbjörn um skýrsluna. „Þarna ertu með leigubíl sem er ekið of hratt en þá er hjólreiðamanninum kennt um, því hann er að hjóla á veginum? Þetta er með ólíkindum. Mér finnst eins og þarna sé gert lítið úr ábyrgð atvinnubílstjóra. [...] Og niðurstaðan virðist vera sú að banna fólki að hjóla á þessum stað?“

Fórnarlambinu kennt um

Ásbjörn bendir á að hjólreiðamaðurinn hafi verið að hjóla snemma að morgni í lítilli umferð. Hann hafi í raun ekki getað valið aðra leið til að hjóla í vinnuna. „Ég get ekki séð hvað hjólreiðamaðurinn var að gera rangt. Hjólið er ökutæki og hann hafði fullan rétt til að vera á veginum.“ Fórnarlambinu sé hins vegar kennt um.

Ásbjörn segist reiður vegna þessa og að hann ætli sér að hitta rannsóknarnefndina til að fá skýrari svör og ræða málið. „Ég er svo hissa á nefndinni að vilja svo bara banna hjólreiðar á fjölakreina vegum. Það á ekki að þurfa að banna hjólreiðar neins staðar. Það þarf frekar að búa til góða stíga sem hjólreiðamenn munu þá nota. Það er lausnin.“

Myndu velja stíga frekar en götur

Aðstæður til hjólreiða á Vesturlandsveginum þar sem slysið átti sér stað eru að mati Ásbjörns engan veginn nægilega góðar. Hann segir þó að innviðir á höfuðborgarsvæðinu til hjólreiða séu að skána, sérstaklega í úthverfum. Enn sé þó langt í land. Að hans mati segir það sig sjálft að ef aðstæður væru betri, hjólreiðastígar væru við allar stofnbrautir, myndu hjólreiðamenn frekar velja þá en götuna. „Best er að hafa þetta svolítið aðskilið, þá velja hjólreiðamenn þær leiðir.“

Að sögn Ásbjörns er það ekki mjög algengt að hjólreiðamenn hjóli á stofnbrautum sem þessum. Undan því verði þó illa komist á nokkrum stöðum. „Ég vil ekki boð og bönn, ég er algjörlega á móti þeim og það er stefna landssamtakanna að berjast gegn boðum og bönnum, að fólk hafi frekar val.“

Sífellt fleiri nota hjólreiðar sem samgöngumáta. Enn vantar upp á …
Sífellt fleiri nota hjólreiðar sem samgöngumáta. Enn vantar upp á að innviðir séu góðir til að auðvelda fólki að komast leiðar sinnar hjólandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta lið er stórhættulegt“

Er mbl.is birti frétt um tillögur rannsóknarnefnda samgönguslysa á Facebook-síðu sinni í gær voru viðbrögðin nokkuð harkaleg. Freyr Helgason sagði t.d. að þeir hjólreiðamenn sem hefðu „eitthvað vit í kollinum“ færu þær leiðir sem minnkuðu líkurnar á „instant dauða“. Aðrir fóru ekki niður á það plan en flestir sem skrifuðu athugasemd sögðust styðja hugmynd um bann. „Hjartanlega sammála. Ömurlegt að sjá menn hjóla t.d. í Ártúnsbrekkunni á háannatíma,“ skrifar Bernhard Linn. „Þetta lið er stórhættulegt,“ skrifaði Ragnar Örn Eiríksson.

Ásbjörn segir að vissulega sé ákveðinn hópur sem amist út í hjólreiðafólk, sá hópur sé hávær í netheimum. Fleiri séu hins vegar sammála um að auka þurfi vægi hjólreiða, bæði út frá heilsufars- og umhverfissjónarmiðum. 

„Brýnast er að halda áfram uppbyggingunni og fjölga þeim sem hjóla,“ segir Ásbjörn. „Hjólreiðar eru öllum til heilsubóta og við þurfum að halda áfram veginn og sofna ekki á verðinum. [...] Verum vinir, hjólreiðamenn og bílaeigendur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert