Fara ekki í fasteignastarfsemi

Guðrún Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.
Guðrún Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. mbl.is/Árni Sæberg

„Við megum samkvæmt lögum ekki fara út í það að byggja eða leigja út hús. Þannig að það er ekki að fara að gerast. Mitt hlutverk núna er að tryggja réttindi sjóðsfélags sem eiga rétt í okkar lífeyrissjóði. Það er mitt hlutverk fyrst og fremst og því mun ég sinna sem stjórnarmaður ásamt öðrum í stjórninni. Ég sé það ekki fyrir mér að við séum að fara í fasteignastarfsemi.“

Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, í samtali við mbl.is en Ragnar Þór Ingólfsson, nýr formaður VR, hefur sagt að hann vilji að lífeyrissjóðirnir leggi til fé til uppbyggingar leigufélaga og byggingar íbúa sem seldar yrðu á kostnaðarverði eða með hóflegri álagningu og að fallið verði frá arðsemiskröfu vegna slíkra verkefna.

„Ég vil benda á í því sambandi að við erum að veita sjóðsfélagslán á hagstæðum kjörum sem hafa notið mikilla vinsælda. Við erum orðin mjög stór á þeim markaði og komum þannig með óbeinum hætti að húsnæðismarkaðinum,“ segir Guðrún. Hlutverk lífeyrissjóða sé að tryggja fólki lífeyri þegar starfsaldri ljúki. Það sé fyrst og fremst hlutverkið en ekki að byggja hús.

Hvað hugmyndir Ragnars um afléttingu arðsemiskröfunnar varðar segir Guðrún að það yrði mjög óábyrgt gagnvart sjóðsfélögum að hennar mati ef stjórnendur lífeyrissjóðsins tækju slík skref með fjármuni þeirra. Ef hins vegar upp kæmu fjárfestingarverkefni sem talin væru hagkvæm með hagsmuni sjóðsfélaga í huga yrðu þau vitanlega skoðuð eins og önnur.

„En við getum ekki farið að breyta lífeyrissjóðakerfinu í almennt húsnæðiskerfi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert