Steingrímur Sævarr Ólafsson fagnar úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu. Dómstóllinn úrskurðaði í dag að Hæstiréttur Íslands hefði brotið gegn tjáningarrétti Steingríms er dómstóllinn gerði honum að greiða manni sem bauð sig fram til stjórnlagaráðs 200 þúsund krónur í miskabætur og 800 þúsund krónur í málskostnað vegna ærumeiðandi ummæla sem birtust í vefmiðlinum Pressunni í ritstjórnartíð Steingríms. Ummæli voru jafnframt ómerkt.
„Ég er mjög ánægður fyrir hönd íslenskra blaðamanna að Mannréttindadómstóllinn hafi í morgun staðfest dóm héraðsdóms um að það á ekki að skjóta sendiboðann,“ segir Steingrímur í samtali við mbl.is. Ekki eigi að refsa fjölmiðlum fyrir að miðla orðum annarra.
Ægir Geirdal Gíslason höfðaði mál gegn Steingrími árið 2011 og krafðist þess að sex tilgreind ummæli um meint kynferðisbrot hans gegn tveimur systrum yrðu dæmd dauð og ómerk.
„Að því leytinu er þetta sigur fyrir vandaða blaðamennsku og enn ein áminning til Hæstaréttar um að fjölmiðlar í lýðræðisþjóðfélagi eru að sinna sinni skyldu að koma upplýsingum á framfæri. Ég held að fimm slíkar áminningar ættu að vera skýr skilaboð til Hæstaréttar um að þeir þurfa að koma inn í nútímann,“ segir Steingrímur. En dómurinn í dag var sá fimmti sem Mannréttindadómstóllinn fellir um að Hæstiréttur Íslands hafi brotið gegn tjáningarfrelsi íslenskra blaðamanna.
Steingrímur segir Mannréttindadómstólinn í úrskurði sínum staðfesta að vinnubrögð við framsetningu fréttanna hafi verið vönduð og átt erindi við almenning. „Upplýsingaöflun var vönduð í málinu og það á ekki að takmarka tjáningarfrelsi eins og Hæstiréttur gerði í sínum dómi. Að þessu leyti tekur Mannréttindadómstóllinn algjörlega undir með héraðsdómi og það eru góðar fréttir.“
„Fyrst og fremst er þetta þó sigur fyrir vandaða blaðamennsku, fyrir íslenska fjölmiðla og fyrir íslenska fréttamenn,“ segir Steingrímur.
Dómur Hæstaréttar í málinu féll árið 2013 og er því töluverður tími liðinn. Steingrímur segist hafa verið meðvitaður um að það tæki tíma að fara með mál fyrir Mannréttindadómstólinn og hann hafi fyrst og fremst verið feginn er hann frétti að dómstóllinn myndi taka málið fyrir. „Því það gaf mér skýr skilaboð,“ segir hann.
„Jónas Fr. Jónsson, lögmaður minn í þessu máli, sagði mér einfaldlega að vera þolinmóður. Niðurstaðan kæmi á endanum sem hún gerði og tíðindin gátu varla verið betri.“
Enginn skaðabótakrafa var samfara kærunni til Mannréttindadómstólsins og segir Steingrímur það heldur ekki hafa verið tilganginn. „Í mínum huga snérist þetta aldrei um að reyna að endurheimta neina peninga, heldur að fá þessa staðfestingu og hún fékkst.“