„Rutte er sigurvegari kosninganna í þeim skilningi að flokkur hans heldur velli sem stærsti flokkurinn. Hins vegar er ríkisstjórnin náttúrulega fallin. En það er ekki auðvelt að útnefna sigurvegara. Hafa verður í huga hversu virkt hlutfallskosningakerfi er í Hollandi og hversu mikið fylgið dreifist. Þarna voru 28 flokkar í framboði og sá sem fær mest fylgi fær engu að síður aðeins lítinn hluta þess. Síðan eru alltaf töluvert miklar sveiflur.“
Þetta segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, í samtali við mbl.is um niðurstöður hollensku þingkosninganna sem fram fóru í gær. Skoðanakannanir bentu lengi vel til þess að Frelsisflokkur Geerts Wilders, sem hefur einkum talað fyrir harðri innflytjendastefnu og kallaði ennfremur eftir úrsögn úr Evrópusambandinu í kosningabaráttunni, yrði stærsti flokkur Hollands og stærri en hægriflokkur Marks Rutte forsætisráðherra, VVD. Flokkur Wilders endaði hins vegar í öðru sæti. VVD hlaut 33 þingsæti og tapaði átta en Frelsisflokkurinn bætti við sig fimm og hlaut 20.
„Þessi framrás þjóðernispopúlistans Wilders og Frelsisflokks hans var kannski ekki eins mikil og einhverjir óttuðust á tímabili en eigi að síður er hann að bæta við nokkrum fjölda þingsæta. Það er samt ekki mikið meiri árangur en slíkir flokkar hafa áður náð í Hollandi. Þannig fékk flokkur Wilders til að mynda meira fylgi í þingkosningunum 2010. Þessi vídd hefur lengi verið til staðar í hollenskum stjórnmálum en árangur slíkra flokka hefur kannski fyrst og fremst verið sá að þeim hefur tekist að stýra umræðunni í innflytjendamálum.“
Þannig hafi Frelsisflokknum, og ýmsum öðrum hliðstæðum flokkum í Evrópuríkjum, tekist að fá hefðbundnari flokka til þess að taka upp og samþykkja hluta af málflutningi þeirra í garð útlendinga. „Það er þar sem árangurinn er mestur. Pólitík þessara flokka hefur snúist um að ala á ótta í garð útlendinga og þeim hefur tekist að dreifa þeim ótta. Hins vegar er það engu að síður svo að yfirgnæfandi meirihluti hollenskra kjósenda hafnar þessum málflutningi,“ segir Eiríkur ennfremur. Sósíaldemókratar hafi farið flatt í þessum efnum.
„Þegar hollenskir sósíaldemókratar fóru að elta þessi sjónarmið þá féll það ekki í kramið hjá kjósendum þeirra. Það er eitthvað sem við höfum séð víðar. Þegar sósíaldemókratar hafa farið að elta popúlíska flokka hefur það oft komið niður á fylgi þeirra,“ segir hann áfram. Talið berst að útspili flokks Ruttes fyrr á þessu ári þar sem auglýst var í blöðum að útlendingar sem kæmu til Hollands en vildu síðan ekki hegða sér og virða frjálslynd gildi landsins gætu farið heim til sín. Eiríkur segir að þetta sé eitt dæmi um áhrif popúlískra flokka.
„Ég hugsa að hvað sem líður fylgi Frelsisflokksins þá sé þetta besti árangur þjóðernispopúlista í Hollandi í því að láta umræðuna hverfast um sig. Hún hefur aldrei hverfst svona mikið um þeirra sjónarmið,“ segir Eiríkur. Spurður hvort málstaður Frelsisflokksins sé í sókn eða sé að dvína í ljósi niðurstaðna kosninganna segir hann að það sé ekki hægt að draga miklar ályktanir um það í ljósi þeirra. „Hann er bara til staðar. Þetta sýnir að slíkir flokkar eru sterkt afl í Evrópu en umræðan um áherslur þeirra er samt ekki samræmi við stærð þeirra, það er gert allt of mikið úr stuðningnum við þá.“
Sjónarmið slíkra flokka njóti hvergi meirihlutastuðnings. Þau séu til staðar en séu hins vegar minnihlutasjónarmið. „Það sem mér finnst athyglisverðast er að þeim er að takast að hafa áhrif á stjórnmálin umfram það sem fylgi þeirra gefur til kynna að þeir ættu að hafa.“