Jákvæð þróun í fuglalífi tjarnarinnar

Tígulegt flugtak rauðhöfðaandarinnar þykir aðdáunarvert, en eitt af einkennum þessara …
Tígulegt flugtak rauðhöfðaandarinnar þykir aðdáunarvert, en eitt af einkennum þessara fugla er að þeir hefja sig til lofts beint upp af vatni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sjö andategundir urpu við Tjörnina sumarið 2016. Þar af voru tvær tegundir sem verpa þar mjög sjaldan, eða rauðhöfðaönd og toppönd. Viðkoma duggandar var sú besta í 36 ár. Viðkoma skúfandar var sömuleiðis góð og sú besta í 15 ár.

Skýrsla um fuglalíf Tjarnarinnar var kynnt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í gær. Skýrslan byggist á árlegri vöktun á fuglum við Reykjavíkurtjörn og í friðlandinu í Vatnsmýri, með áherslu á fjölda anda og varpárangur þeirra.

Einnig er fylgst með viðveru annarra fuglategunda, sérstaklega þeirra er verpa á svæðinu, t.d. kría og grágæsa. Fuglafræðingarnir Ólafur K. Nielsen og Jóhann Óli Hilmarsson standa að þessari vöktun fyrir Reykjavíkurborg, sem hefur staðið yfir samfleytt frá árinu 1973, að því er fram kemur í tilkynningu frá borginni.

„Fimm andategundir hafa verpt reglulega við Reykjavíkurtjörn undanfarin ár og áratugi og þrjár tegundir til viðbótar verpa stöku sinnum. Sumar varptegundirnar eru afkomendur ræktaðra anda sem sleppt var á Tjörnina á 7. og 8. áratug 20. aldar og hafa verpt síðan þá,“ segir í skýrslunni.

„Þar má nefna kafendurnar duggönd, skúfönd og æðarfuglinn. Aðrar tegundir hafa verpt þar af sjálfsdáðum um langa hríð eins og stokkönd eða hafið varp nýlega eins og urtönd sem hefur nú orpið árlega frá árinu 2014.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka