Skemmdir við kirkjuna eftir norðurljósaferðir

Sóknarnefndin er ósátt við aðkomuna og íhugar að loka afleggjaranum …
Sóknarnefndin er ósátt við aðkomuna og íhugar að loka afleggjaranum að kirkjunni. Ljósmynd/Þórir Jónsson

Ljótt er nú um að litast við Kálfatjarnakirkju á Vatnsleysuströnd, en töluverðar skemmdir eru á grasinu við kirkjuna eftir utanvegakstur ferðaþjónustufyrirtækja. Þórir Jónsson vekur athygli á málinu á Facebook-síðunni Bakland ferðaþjónustunnar og deilir myndum af skemmdunum.

„Ég var að vinna við útför í dag og þegar ég mætti í Kálfatjarnakirkju, Vatnsleysuströnd var þetta sem blasti við mér. Ég sem rútubílstjóri og verðandi leiðsögumaður finnst mér þetta mjög leiðinlegt að sjá,“ segir í færslu Þóris. „Kæru rútubílstjórar og leiðsögumenn Við verðum að virða þessa staði og ganga vel um og sýna tillitsemi,“ segir í færslunni.

Djúp hjólför eru í grasinu og hefur sóknarnefndin rætt a …
Djúp hjólför eru í grasinu og hefur sóknarnefndin rætt a loka afleggjaranum niður að kirkjunni. Ljósmynd/Þórir Jónsson

Þórir hefur eftir staðarhaldara og formanni sóknarnefndar að staðurinn sé vinsæll hjá ferðaþjónustufyrirtækjum fyrir norðurljósaferðir.  Símon Rafnsson, formaður sóknarnefndar, staðfestir í samtali við mbl.is að  ferðaþjónustufyrirtækið noti bílaplanið við kirkjuna mikið fyrir slíkar ferðir.

„Ég var þarna á ferð eitt kvöldið í vikubyrjun og ég taldi þá einar 15 rútur á planinu,“ segir hann. Bílaplanið sé vel rúmt, en engu að síður sé nokkuð um að rútur fari út í grasið. „Þar skilja þær eftir djúp hjólför af því að jörð er svo blaut að hún þolir ekki þennan þunga. Afleggjarinn sem liggur niður að kirkjunni er líka orðinn stórskemmdur,“ segir Símon og segir sóknarnefnd vissulega ósátta við skemmdirnar.

Grasið við Kálfatjarnakirkju er illa farið eftir norðurljósaferðir ferðaþjónustufyrirtækja.
Grasið við Kálfatjarnakirkju er illa farið eftir norðurljósaferðir ferðaþjónustufyrirtækja. Ljósmynd/Þórir Jónsson

Gjaldtaka og lokun verið rædd

Símon kveðst vita til þess að málið hafi verið tekið upp við stærstu ferðaþjónustufyrirtækin. „Sumir segjast aldrei koma þarna, þó að við teljum þá á hverjum degi.“ Þá hafi komið til þess að rútur loki afleggjaranum að kirkjunni og bílstjórar neiti að færa sig þegar þeir eru beðnir að hleypa umferð um veginn. „Yfirleitt er þetta ekkert nema almennilegheita fólk, en það eru alltaf nokkrir.“ 

Símon segir hugmyndir um gjaldtöku eða lokun afleggjarans vissulega hafa verið ræddar af sóknarnefndinni. „Það er erfitt að standa í gjaldtöku en okkur hefur meira en dottið í hug að loka afleggjaranum niður eftir,“ segir hann enda sé verulega kostnaðarsamt fyrir sóknina að lagfæra skemmdirnar.

Símon segir kostnaðarsamt fyrir sóknina að laga skemmdirnar.
Símon segir kostnaðarsamt fyrir sóknina að laga skemmdirnar. Ljósmynd/Þórir Jónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert