Vill að rútufyrirtækin leggi sitt af mörkum

Grasið við Kálfatjarnakirkju er illa farið eftir norðurljósaferðir ferðaþjónustufyrirtækja.
Grasið við Kálfatjarnakirkju er illa farið eftir norðurljósaferðir ferðaþjónustufyrirtækja. Ljósmynd/Þórir Jónsson

Töluverðar skemmdir eru eftir utanvegaakstur í nágrenni Kálfatjarnakirkju og Golfklúbbs Vatnsleysustrandar, en svæðið er vinsæll viðkomustaður í norðurljósaferðum ferðaþjónustufyrirtækja. Mbl.is greindi frá því í morgun að sóknarnefnd kirkjunnar íhugi nú að loka afleggjaranum að kirkjunni þar sem viðgerðir á slíkum skemmdum eru afar kostnaðarsamar fyrir litla sókn. 

Húbert Ágústsson, sem sér um daglegan rekstur Golfklúbbs Vatnsleysustrandar, sendi fyrir nokkru póst á fjölda rútufyrirtækja vegna málsins, en kirkjan og golfklúbburinn deila afleggjaranum.

„Ég gerði þetta fyrir hönd svæðisins, því við eigum í góðu samstarfi okkar á milli um að halda svæðinu snyrtilegu,“ segir Húbert.

Tvö fyrirtæki til í að leggja sitt af mörkum 

Einungis tvö rútufyrirtæki tóku vel í hugmynd Húberts um að leggja eitthvað að mörkum vegna viðhald vegarins. „Þeir hjá Snæland Grímsson og Reykjavík Excursions tóku vel í erindi okkar og koma í smá samstarf með okkur,“ segir Húbert. Önnur rútufyrirtæki sem hann skrifaði hafa síðan ýmist ekki svarað eða hafnað slíku samstarfi. „Síðan eru líka sumir sem ekki segjast koma þangað.“

Mbl.is hafði eftir Sím­on Rafns­syni, formanni sókn­ar­nefnd­ar Kálfatjarnarkirkju, að sóknarnefndin vissi til þess að sum ferðaþjónustufyrirtæki fullyrtu að þau kæmu ekki að kirkjunni þó að rútur þeirra sæjust þar næstum daglega. 

Húbert segir notkun ferðaþjónustunnar á afleggjaranum ekki hafa verið neitt mál þegar tvær rútur fóru um hann á viku, nú megi hins vegar stundum telja 15 rútur á svæðinu í einu og slík umferð hafi áhrif sem nái út fyrir áðurnefndar skemmdir.

Slæmt að eyða hundruð þúsunda í að laga til eftir aðra

„Við erum með malbiksfræs á plönunum og þegar margar stórar rútur taka snúning  á bílaplönunum þá rífur það þau upp. Síðasta vor voru hringir í planinu eftir stórar rútur og það er slæmt fyrir okkur sem erum lítill klúbbur og lítil sókn að þurfa að vera að eyða fleiri hundruð þúsundum í  að laga til eftir aðra,“ segir hann.  

Sjálfsagt sé að leyfa rútufyrirtækjum að nota bílastæðin. „En menn þurfa samt kannski að horfa til þess að það þarf líka að laga til eftir þá og það á ekki að lenda á okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert