Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, kveðst ekki hafa áhyggjur af því þó norsku ferðaheildsölufyrirtæki hafi borist um 1500 afbókanir vegna fyrirhugaðra ferða til Íslands í sumar.
Fjallað var um málið í kvöldfréttum RÚV en þar sagði ennfremur að styrking krónunnar undanfarin misseri hafi haft mikil áhrif á útflutningsgreinarnar, og þar sé ferðaþjónustan ekki undanskilin. Ferðaþjónustufyrirtækin hafi mörg hver selt eða bókað ferðir fram í tímann og því komi gengisþróunin sérlega illa við þau.
„Ég hef ekki áhyggjur af fækkun ferðamanna til Íslands,“ segir Grímur í samtali við mbl.is þegar hann er inntur viðbragða við áðurnefndum afbókunum.
Hann segir að þetta þurfi ekki að koma á óvart í ljósi þess hversu mikill fjöldi ferðamanna komi hingað og einnig í ljósi sterks gengis krónunnar. „Ég held í sjálfu sér að þetta sé vísbending um að markaðurinn sé að leita einhvers jafnvægis. Þetta er einn ferðaheildsali í Noregi, ég veit ekki hvort það þurfi að vera eitthvað sem menn þurfa að alhæfa um allan markaðinn,“ segir Grímur og hlær þegar hann er spurður að því hvort það verði krísufundur í fyrramálið vegna fregnanna.
„Fjarri því. Við erum að tala um að við tökum á móti 2,3 milljónum ferðamanna í ár. Vissulega er landið vegna gengis krónunnar ekki eins samkeppnishæft í verðum og það var en svo er líka alltaf spurningin; er áhyggjuefni að Ísland er dýrt? Hvernig viljum við að Ísland sé sett meðal annarra þjóða í því samhengi? Ég vil frekar að Ísland sé dýrt heldur en ódýrt ef það er vangaveltan. Auðvitað þarf alltaf að leita jafnvægis í þessu eins og öðru.“