Hæstiréttur sneri í vikunni úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að skiptastjóri dánarbús Ingvars Helgasonar og Sigríðar Guðmundsdóttur mætti láta erlenda rannsóknarfyrirtækið K2 (áður Kroll) framkvæma könnun á erlendum reikningum sem kunna að vera í eigu búsins.
Börn Ingvars og Sigríðar hafa deilt um könnunina og var úrskurður héraðsdóms frá því í síðasta mánuði kærður til Hæstaréttar.
Fjallað var um málið í Kastljósi í apríl í fyrra í tengslum við Panama-skjölin. Þar kom fram að erfingjar Sigríðar og Ingvars deildu um hvort eignir vantaði í dánarbúið. Júlíus Vífill Ingvarsson og Guðmundur Ágúst Ingvarsson lögðust gegn því að rannsóknin færi fram. Þeir töldu kostnað við slíkt of mikinn og vilja að systkinin sem vilja slíka rannsókn greiði fyrir hana.
Júlíus hefur tjáð sig um málið við mbl.is auk þess sem hann sendi frá sér yfirlýsingu eftir að málið kom upp. Sagði hann meðal annars umfjöllun Kastljóss byggða á rangfærslum.
Telur Hæstiréttur að af gögnum málsins verði ekki ráðið að nokkuð annað liggi fyrir en orðrómur um að Ingvar Helgason hafi átt bankareikninga erlendis þegar hann andaðist á árinu 1999. Þannig virðist ekkert hafa verið upplýst um í hvaða löndum eða bönkum slíkir reikningar gætu hafa verið eða um innstæður á þeim. Samkvæmt fundargerðum frá áðurnefndum skiptafundum gerði enginn erfingi kröfu um að skiptastjóri gripi til aðgerða til að kanna þetta frekar.
Að þessu gættu voru engin efni til að skiptastjóri tæki af sjálfsdáðum ákvörðun um að ráðast á kostnað dánarbúsins í umfangsmikla rannsókn.
Júlíus Vífill sagði af sér sem borgarfulltrúi í kjölfar umræðu um Panama-skjölin en í gögnunum var að finna upplýsingar um eignarhald hans á aflandssjóðnum Silwood Foundation. Var hann af hluta systkinanna sakaður um að geyma á reikningum sínum fjármuni í eigu foreldra sinna.
Júlíus og Guðmundur segja að hin systkinin hafi leitað þessara fjármuni með K2 síðan í september 2015 eða jafnvel í yfir áratug, án árangurs.