Aukið aðgengi eykur skaða

Fjallað var um hver ætti að selja áfengi á opnum …
Fjallað var um hver ætti að selja áfengi á opnum fundi í Iðnó í dag. mbl.is/Heiddi

Aukið aðgengi að áfengi mun auka tíðni áfengistengdra sjúkdóma og skaða tengdan þeim. Þetta kom fram í máli Hlyns Davíðs Löve, læknis við Landspítalann, á hádegisfundi í Iðnó í dag.

Yfirskrift fundarins var „Hver á að selja áfengi? Hvað segja rannsóknir?“ en fundarstjóri var Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra.

Hlynur fjallaði um algengi, nýgengi og dánartíðni áfengistengdra sjúkdóma og lífslíkur í Danmörku, Svíþjóð og á Íslandi. Niðurstöður reyndust þær að reglugerðir og löggjöf þegar kom að aðgengi að áfengi var landa mildust í Danmörku en ströngust á Íslandi. Danmörk mældist landa hæst þegar kom að sölu og neyslu áfengis en Ísland lægst. Nýgengi og algengi flestra þeirra sjúkdóma sem tengja má beint við áfengisneyslu var hæst í Danmörku, en lægst á Íslandi og lífslíkur reyndust mestar á Íslandi.

„Við mættum gera ráð fyrir því að tíðni á skorpulifur, krónískum brisbólgum og magabólgum myndi aukast og í kjölfarið myndi væntanlega tíðni krabbameins í brisi aukast. Við myndum sjá aukningu á dánartíðni frá þessum áfengistengdu sjúkdómum. Ég hef ekki sérstaka tölu á því hver breytingin yrði en hún yrði marktæk,“ segir Hlynur í samtali við mbl.is.

Samkvæmt fyrirhuguðu áfengisfrumvarpi yrði sala alls áfengis leyfð í búðum, frá 9 að morgni til miðnættis. Hlynur telur það ekki kunna góðri lukku að stýra að blanda saman sölu áfengis og annarra vara í verslunum.

„Frá heilbrigðissjónarmiðum og því að lækka sjúkdómstíðni þessara sjúkdóma þá væri þetta skref í ranga átt, ef þetta frumvarp færi í gegn. Við sæjum þá aukna tíðni í algengi þessara sjúkdóma og sem starfsmaður hins íslenska heilbrigðiskerfis þá líst mér illa á það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert