Töluverð fjölgun hefur orðið í þeim hópi fólks sem greinst hefur með kynsjúkdóma hérlendis á undanförnum árum. Einkum hafa fleiri greinst með sárasótt og lekanda og segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mikilvægt að bregðast hratt við með aukinni fræðslu.
Í nýjasta tölublaði Farsóttafrétta, fréttabréfi sóttvarnalæknis, kemur fram að í fyrra greindust 33 tilfelli af sárasótt eða 10 fleiri en árið 2014 og 2015. 88% þeirra sem greindust voru karlmenn á aldrinum 20 til 61 árs, sem stunda kynlíf með öðrum körlum. Þórólfur segir að þetta sé mikil breyting. Áður fyrr hafi ekki verið nema um eitt eða tvö tilfelli á ári.
Lekandatilfelli voru nær tvöfalt fleiri en á fyrri árum, en 2016 greindust 86 tilfelli hjá fólki á aldrinum 15 til 55 ára. Þar af voru karlar 74% og talið „að smit tengist samkynhneigð í yfir 70% tilfella“.
Árlega greinast um 2.000 tilfelli af klamydíu, sem er langalgengasti kynsjúkdómurinn hérlendis, en 60% þeirra sem greindust á liðnu ári voru konur.
27 einstaklingar, 20 karlar og 7 konur, greindust með HIV-sýkingu í fyrra eða meira en tvöfalt fleiri en árin tvö þar á undan. 14 þeirra sem greindust með sýkinguna voru með íslenskt ríkisfang og í 13 tilvikum af 27 var uppruni smitsins rakinn til Íslands. Sjö smitaðra voru samkynhneigðir, sjö gagnkynhneigðir og sex með sögu um sprautunotkun. Sex einstaklingar greindust með alnæmi, sem er lokastig sjúkdómsins, og þrír til viðbótar báru merki um langt genginn sjúkdóm.
Samkvæmt þessum tölum verða karlar sem hafa kynmök með körlum einkum fyrir barðinu á sárasótt og lekanda. Þórólfur segir að sama þróun eigi sér stað í öðrum vestrænum löndum. Orsökin sé ekki augljós en ætla megi að menn séu kærulausari í kynlífi en áður, kannski vegna þess að auðvelt sé að meðhöndla HIV og halda sjúkdómnum niðri, og hugsanlega hafi notkun smokka minnkað. Auka þurfi vitund fólks um þessa sjúkdóma og mikilvægast sé að ná til þessa áhættuhóps, því það skili mestum árangri. „Sárasótt getur verið mjög alvarlegur sjúkdómur,“ segir Þórólfur og bendir á að án aðgerða sé spurning hvenær sjúkdómurinn breiðist í auknum mæli út til kvenna og hann geti valdið miklum skaða á fóstri. „Það er eitthvað sem við viljum ekki sjá.“
Fjöldi greindra kynsjúkdóma á liðnu ári er mikið áhyggjuefni, að sögn Þórólfs. „Það er ekki gott ef þetta heldur svona áfram,“ segir hann. Embættið hafi aukið samvinnu við samtök, sem eru með kynfræðslu í skólum, og hvatt til aukinnar notkunar smokka, meðal annars með því að settir verði upp sjálfsalar með smokkum í framhaldsskólum. Eins hafi fulltrúar HIV-Íslands og forsvarsmenn Samtakanna 78 verið hvattir til þess að vekja athygli á þessu innan sinna raða og hvetja til ábyrgs kynlífs.
Þórólfur Guðnason lagði til að skipaður yrði starfshópur til að gera tillögur um aðgerðir gegn útbreiðslu kynsjúkdóma og kynnti heilbrigðisráðherra um skipun slíks starfshóps í fyrradag, þar sem Þórólfur er formaður. „Við reynum að ljúka þessu eins fljótt og við getum,“ segir hann.